Dagrún og Heiðrún eru áhugafólki um knattspyrnu í Mosfellsbænum að góðu kunnar en þær léku stórt hlutverk í öflugum yngri flokkum félagsins fyrir nokkrum árum síðan. Þær fluttust svo búferlum ásamt Ásrúnu systur sinni og foreldrum til Austurríkis en hafa verið búsettar í Þýskalandi undanfarin ár.
Þríburarnir Ásrún, Dagrún og Heiðrún léku síðast með Aftureldingu í 4.flokki sumarið 2008 og léku þá m.a. til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn en hafa m.a. leikið með Vfr Limburg og Eintracht Frankfurt í þýska boltanum og gerðu svo unglingasamning við stórliðið 1.FCC Frankfurt haustið 2011.
Síðasta tímabil hefur Heiðrún leikið með Frankfurt 2 í Bundesligu 2 en aðallið félagsins er gríðarsterkt og lenti í öðru sæti í þýsku Bundesligunni í vor og tekur þátt í Meistaradeild Evrópu næsta vetur. Frankfurt skaut m.a. stórliðinu Turbine Potsdam sem Íslendingar kannast við ref fyrir rass.
Dagrún og Ásrún léku með Frankfurt 3 í Hessenliga sem er efsta deild í þýska fylkinu Hesse þar sem borgin Frankfurt einmitt er og stóðu uppi sem deildarmeistarar.
Knattspyrnudeild býður þær systur velkomnar heim og óskar þeim góðs gengis í Pepsideildinni það sem eftir lifir sumars og biður fyrir kveðjur til Ásrúnar í Þýskalandi.
Mynd (úr einkasafni) frá vinstri, Heiðrún Sunna, Bjarki Már Sverrisson yfirþjálfari hjá Aftureldingu, Ásrún Dóra og Dagrún Björk