Engin stig frá Ásvöllum

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Í þann mund sem leikur hófst fór að rigna og var völlurinn talsvert blautur og erfiður yfirferðar fyrir bæði lið. Fór leikurinn enda rólega af stað og liðin þreifuðu fyrir sér fyrstu mínúturnar.

Fyrsta færi leiksins var okkar þegar Alda átti skot á nærstöng sem markmaður Hauka varði vel en eftir um tíu mínútur tóku Haukar forystuna þegar löng sending yfir vörn Aftureldingar náði til sóknarmanns þeirra sem kláraði vel yfir Hafdísi í marki Aftureldingar og staðan 1-0.

Eftir um hálftíma leik kom besta færi fyrri hálfleiks þegar Alda var aftur á ferðinni með gott skot en Íris í marki Hauka varði frábærlega. Ekki dró frekar til tíðinda í fyrri hálfleik og staðan því 1-0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik réð Afturelding gangi leiksins lengst af og var boltinn meira eða minna á vallarhelming Hauka. Okkar stelpum tókst þó ekki að finna hinn fræga herslumun og náðu ekki að opna vörn Hauka sem áttu nokkrar skyndisóknir en lágu annars í vörn.

Það var því mjög gegn gangi leiksins þegar Haukar juku forystu sína undir lok leiksins. Afturelding hafði þá fækkað í vörn til að reyna að knýja fram a.m.k. jafntefli og Haukar gengu á lagið og skoruðu 2-0 sem urðu lokatölur leiksins.

Afturelding er eftir leiki dagsins í fjórða sæti með sex stig en þrjú lið eru fyrir ofan okkur með níu stig. Næsti leikur er gegn Álftanesi á Varmárvelli 23.júní n.k.

Lið Aftureldingar: Hafdís (M), Halldóra Þóra, Tinna Björk, Valdís Ósk, Snjólaug (Svandís Ösp 79), Eva Rut (Gunnhildur 52), Sandra Dögg (Valdís Björg 72) Sigríður Þóra (F), Kristín Þóra, Alda, Elena. Varamenn: Selma Líf, Hildur Ýr, Sif, Guðný Lena.

Mynd: Raggi Óla