Eftir fínan stíganda í leik liðsins undanfarið töldu margir ástæðu til bjartsýni þegar ÍBV kom í heimsókn í Mosfellsbæinn á þriðjudag. Aftureldingarstúlkur höfðu átt góða kafla í leikjunum gegn Þór/KA og Val og voru vel stemmdar fyrir leikinn sem fór nokkuð rólega af stað. ÍBV fékk fyrsta færi leiksins en Mist sá við Sigríði Láru sóknarmanni þeirra og stuttu síðar komst Sigríður Þóra í sæmilegt færi hinu megin en náði ekki að trufla markmann gestanna úr þröngu færi.
Eftir um tuttugu mínútna frekar tíðindalítinn leik fékk Afturelding hornspyrnu en ÍBV varðist vel og skyndilega var Shaneeka Gordon komin ein inn fyrir og hún sendi svo boltann fyrir þar sem Vesna Smiljkovic kom aðvífandi, sneri af sér varnarmann og skoraði fyrsta mark leiksins. Við þetta efldust gestirnir og skömmu seinna fékk Shaneeka ágætt skot sem Mist varði í horn.
Afturelding átti þó sína spretti, Helen átti skot af löngu færi framhjá og Lilja Dögg fékk svo best færi okkar þegar Sigga fékk boltann á hættulegum stað og sprengdi vörn ÍBV með snilldarsendingu í gegn á Lilju sem var komin ein á móti markmanni en skot hennar small í stönginni. Og aftur var okkur svo refsað þegar ÍBV geistist í sókn og aftur var það Shaneeka Gordon sem komst í gegn eftir sendingu fra Vesnu og nú lagði Shaneeka boltann út í teiginn á Kristínu Erlu Sigurlásdóttur sem skoraði annað mark ÍBV.
Bæði lið reyndu fyrir sér án þess að skapa hættu en fimm mínútum fyrir leikhlé var dæmd hornspyrna á Aftureldingu og þar reis Sigríður Lára Garðarsdóttir hæst á fjærstöng og skoraði þriðja mark ÍBV og verður að segjast að nýting þeirra á færum sínum var hreint sérlega góð. Staðan 0-3 í hálfleik.
Teddi gerði eina breytingu í hálfleik. Kristín Þóra kom inn í stað Ingu Dísar og þá voru gerðar breytingar á leikskipulaginu til að freista þess að komast inní leikinn að nýju. En þrátt fyrir betri frammistöðu liðsins eftir hlé náðum við ekki að gera atlögu að forystu gestanna og í staðinn bættu þeir við einu marki þegar lítið var eftir og var þar á ferðinni Kristín Erla með annað mark sitt í leiknum eftir enn einn sprettinn frá Shaneeku og 4-0 sigur ÍBV staðreynd.
Lið Aftureldingar átti ekki góðan dag og náði því miður ekki að fylgja á eftir tveimur ágætum leikjum þar á undan. ÍBV lék vel, sérstaklega í fyrri hálfleik en sigur þeirra var þó óþarflega stór. Hættuleg færi voru ekki mörg og mörkin þeirra óþarflega ódýr. Shaneeka Gordon fór á kostum og átti þátt í öllum mörkum ÍBV. Hún átti þrjár stoðsendingar af kantinum og þá fjórðu mætti segja einnig en hún vann einmitt hornspyrnuna sem skilaði einu markinu.
Lið Aftureldingar:
Mist
Steinunn (Sandra 75) – Amy – Hrefna – Inga (Kristín Þóra 46)
Dísa (Kristrún 60) – Lilja
Helen – Berglind
Aldís – Sigga