Fjölmennur íbúafundur um fjölnota íþróttahús

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Umræða um nauðsyn þess að Mosfellsbær eignist fjölnota íþróttahús hefur verið sífellt meira áberandi í bæjarlífinu undanfarin misseri og má segja að boltanum hafi formlega verið ýtt af stað með íbúafundi knattspyrnudeildar um byggingu slíks húss í Lágafellsskóla á þriðjudagskvöld.

Hátíðarsalur skólans var þétt setinn en á annað hundrað manns mætti á fundinn. Fundarstjóri var Sigurjón M. Egilsson og erindi fluttu Lúðvík Georgsson frá KSÍ sem er manna fróðastur um byggingu slíkra mannvirkja hér á landi, Haraldur Ingólfsson frá ÍA sem ræddi um reynslu nágranna okkar á Akranesi af þeirra húsi og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri sem fjallaði um aðkomu bæjarins að ákvarðanatöku og framkvæmd við slíka byggingu.

Að því loknu var tekið við spurningum og ávörpum úr sal sem margir nýttu sér. Mikla athygli vöktu tölur frá Akranesi um mikla aukningu iðkenda í knattspyrnu eftir að Akraneshöllin reis og sérstaklega að iðkendum í öðrum greinum fjölgaði einnig mjög þannig að heildaraukning barna og unglinga í íþróttastarfi var veruleg.

Haraldur bæjarstjóri flutti sínar hugleiðingar um stærð, staðsetningu og kostnað og hvaða áhrif slík framkvæmd getur haft á fjárhag sveitarfélagsins. Kom þar margt áhugavert fram en bæjarstjórn hefur sem kunnugt er skipað starfshóp til að vinna að framgangi málsins. Þá mun undirbúningsnefnd knattspyrnudeildar halda áfram sínu starfi og fara yfir næstu skref í samvinnu við félagið og bæjaryfirvöld.

Óhætt er að segja að þó engin loforð hafi verið meitluð í stein að mikil bjartsýni ríkti meðal fundargesta um að þetta mikilvæga hagsmunamál Aftureldingar og bæjarbúa allra sé nú komið á það skrið að ekki verði aftur snúið.