Frábær sigur á Breiðablik

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Það voru fyrirmyndaraðstæður í Kópavogi, sól og blíða en ekki of hlýtt og góð stemning á stuðningsmönnum beggja liða. Leikurinn hófst rólega og höfðu Blikar boltann heldur meira en Afturelding lá til baka og lék afar yfirvegað og skipulega en beitti skyndisóknum þegar tækifæri gafst.

Það var einmitt eftir eina slíka þegar Kristín Tryggvadóttir og Telma Þrastardóttir léku sig í gegnum vörn Blika á tólftu mínútu og eftir skot frá Telmu fylgdi Kristín vel á eftir og skoraði. Staðan 1-0 fyrir Aftureldingu.

Blikar voru ekki lengi að svara fyrir sig og gerðu það mínútu síðar og staðan jöfn. Næstu mínútur sóttu heimastúlkur af kappi án þess að skapa sér góð færi og þegar komið var yfir miðjan hálfleikinn náðu okkar stelpur forystunni þegar Telma skoraði eftir mikinn sprett eftir að Kristrún Halla Gylfadóttir hafði stöðvað sókn Blika í fæðingu. Þannig stóð í hálfleik og heldur betur farið að fara um heimamenn.

Í síðari hálfleik sótti Breiðablik af kappi og pressaði á gesti sína í leit að jöfnunarmarki. Varnarmúr Aftureldingar hélt hinsvegar og Megan markmaður greip vel inní þegar á þurfti að halda. Þrátt fyrir ákafa sókn Breiðabliks áttu okkar stelpur sín færi og minnstu munaði að Sigríður Þóra Birgisdóttir gerði út um leikinn eftir snarpa sókn.

Úrslitin 2-1 fyrir Aftureldingu sem þar með er með 13 stig í deildinni og hefur nú náð FH að stigum í sjöunda til áttunda sæti. HK/Víkingur vann reyndar sinn leik og kemur í humátt á eftir og spennan því enn í hámarki í Pepsideildinni.

Eftir frammistöðuna á Kópavogsvelli er ómögulegt að velja einn leikmann leiksins öðrum fremur. Liðsheildin og samheldni leikmanna skóp sigurinn og allar gáfu stelpurnar okkar sig 100% í leikinn frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu.

Megan átti nokkrar frábærar vörslur og sannkallaðan stórleik og í vörninni léku Guðný Lena og Kristrún vel í bakverðinum og Jenna og Hrefna Guðrún voru frábærar í miðri vörninni. Eva Rún kom inní byrjunarliðið og lék óaðfinnanlega og Cecila barðist sem sönn valkyrja. Kristín átti glæsilegan leik í fyrri hálfleik og skoraði laglegt mark og Hafdís sem leysti Kristínu af hólmi í hálfleik stóð fyrir sínu. Helga Dagný átti einnig góðan dag og Sigga var frábær, vann sleitulaust allan leikinn og tengir vel saman miðjuspil og sóknarleikinn. Telma átti svo einfaldlega stórleik, lagði upp eitt mark og skoraði annað og var óþreytandi út um allan völl í rúmar 90 mínútur. Stuðningsmenn liðsins í stúkunni voru svo tólfti maðurinn og létu vel í sér heyra allan leikinn.

Næsti leikur er á heimavelli gegn ÍBV á mánudaginn kemur.