Frækinn sigur á sterkum Sandgerðingum

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Reynismenn mættu taplausir til leiks og á toppi deildarinnar og áttu menn von á hörkuleik og jafnvel nokkuð erfiðum gegn góðu Reynisliði. Það varð því uppi fótur og fit þegar Steinar Ægisson, Magnús Már Einarsson og Wentzel Steinarr Ragnarsson Kamban komu heimamönnum í 3-0 á fyrsta stundarfjórðungi leiksins og útlit fyrir að suðurnesjablaðran væri sprungin. En Reynir er með gott lið og menn girtu sig í brók og náðu undirtökum í leiknum. Staðan þó 3-0 í hálfleik við mikinn fögnuð heimamanna í stúkunni.

Reynir hleypti spennu í leikinn með tveimur mörkum strax eftir hlé og sóttu jöfnunarmarkið stíft en Steinarr Kamban kom þá aftur til sögunnar og jók forskot heimamanna að nýju. Dugði þá ekki þriðja mark gestanna en Magnús Már gulltryggði sigur Aftureldingar sem vann því 5-3.

Þetta er annar heimasigurinn í röð og liðið nú komið í hópinn um miðja deild og mætir Dalvík/Reyni á útivelli á miðvikudag.