Fréttir af yngri flokkum félagsins

Knattspyrnudeild Knattspyrna

2.flokkur karla náði í sín fyrstu stig á dögunum þegar strákarnir unnu Gróttu á útivelli 2-1 með mörkum Gunnars Andra Péturssonar og Ægis Snorrasonar. Liðið hafði fram að því spilað tvo aðra erfiða útileiki á Ísafirði og Reyðarfirði og tapað naumlega þrátt fyrir að eiga heilmikið í báðum leikjunum. Afturelding er í sjötta sæti C-deildar sem stendur.

2.flokkur kvenna tapaði hinsvegar sínum fyrsta leik í vikunni þegar topplið HK/Víkings kom í heimsókn á Tungubakka. Lið Aftureldingar var nokkuð vængbrotið í leiknum og saknaði margra leikmanna vegna meiðsla eða annarra forfalla og átti erfitt uppdráttar gegn sterkum Fossvogsbúum. Leikurinn fór 3-6 og skoraði Valdís Björg Friðriksdóttir öll mörk Aftureldingar sem er í fjórða sæti B-deildar eftir leikinn.

A-lið 3.flokks karla beið sinn fyrsta ósigur þegar liðið sótti Skagamenn heim í vikunni. Mark frá Bjarka Eyþórssyni dugði ekki því ÍA gerði tvö mörk og vann. Afturelding er þó enn á toppi B-deildarinnar með níu stig ásamt FH og ÍA. B-liðið vann hinsvegar ÍA 2-1 með mörkum Ísaks Mána Viðarsonar og Andra Freys Jónassonar og situr taplaust á toppi deildarinnar eftir frábæra byrjun á mótinu.

4.flokkur karla leikur í B-riðli og þar hefur gengið upp og ofan. A-liðið opnaði mótið á sigri en hefur verið óheppið í síðustu leikjum og tapaði naumlega 2-3 gegn Selfossi í síðustu viku. Strákarnir eru í áttunda sæti deildarinnar sem stendur. B-liðinu hefur gengið ögn betur og sitja í sjöunda sæti deildarinnar en þeir unnu einmitt Selfyssinga í uppgjöri B-liðanna.

4.flokkur kvenna hefur ekki leikið síðan í lok maí þegar liðið gerði markalaust jafntefli við HK á útivelli. Liðið leikur nú tvo leiki á næstu dögum en stelpurnar eru í sjöunda sæti B-deildar eftir tvo leiki. Þá er eitt lið frá okkur í keppni í 7 manna bolta sem hefur keppni í vikunni.

Barnaflokkarnir eru einnig á fullu, 5.flokkur kvenna er nýkominn frá Pæjumóti í Eyjum og framundan er Símamót hjá 6. og 7.flokki. 5.karla fer að venju á N1 mótið á Akureyri og 6.karla til Eyja á meðan 7.karla tekur þátt í Norðurálsmóti á Akranesi. Þá eru hin ýmsu hraðmót í gangi ásamt Íslandsmóti og verður verkefnum yngstu flokkanna gerð betri skil á næstunni.