Leikurinn var jafn og frekar tíðindalítill í fyrri hálfleik. Eva Rún Þorsteinsdóttir fékk hættulegt færi fyrir heimaliðið eftir hornspyrnu snemma leiks og eftir um það bil hálftíma áttu Fylkisstúlkur gott færi sömuleiðis eftir hornspyrnu. Stuttu síðar tók Fylkir forystu með hálf slysalegu marki sem fréttaritari sá ekki vel og staðan orðin 0-1.
Besta færi okkar átti Sigríður Þóra Birgisdóttir þegar hún komst í gegn eftir laglega stungusendingu frá Kristínu Þóru systur sinni en markmaður Fylkis gerði vel og varði í horn og staðan því óbreytt í hálfleik.
Strax í byrjun síðari hálfleiks áttu Fylkiskonur laglega skyndisókn og náðu að skora 0-2 og staðan ekki sem best fyrir Aftureldingu. En stelpurnar okkar misstu ekki móðinn og efldust við mótlætið. Um miðjan hálfleikinn fékk Valdís Björg Friðriksdóttir flotta stungu frá Sigríði Þóru og setti boltann yfirvegað framhjá markverðinum en því miður í stöngina og Fylkir slapp með skrekkinn.
Síðasta stundafjórðunginn átti Fylkir eitt skot að marki þar sem eitthvað reyndi á Mist Elíasdóttur í markinu en annars var það Afturelding sem réði ferðinni. Þegar átta mínútur voru eftir vann Evar Rún boltann á miðjunni, lék áfram og gaf svo stungu á Valdísi sem lyfti knettinum laglega yfir markmann Fylkis og staðan orðin 1-2.
Rétt fyrir leikslok munaði svo minnstu að Valdís næði að jafna leikinn en Eva Rún kom með langa sendingu fram sem markmaður og varnarmaður Fylkis virtust hafa stjórn á en Valdís setti á þær pressu og náði boltanum framhjá þeim en tókst ekki að koma knettinum í netið.
Fleira markvert gerðist ekki og úrslitin 1-2 fyrir Fylki í jöfnum leik sem e.t.v. verður helst minnst fyrir slagveðrið sem setti óneitanlega svip sinn á leikinn og svo hitt að þrjár systur léku saman í liði Aftureldingar en þær Sigríður Þóra, Halldóra Þóra og Kristín Þóra Birgisdætur komu allar við sögu í leiknum.
Næst mæta stelpurnar okkar FH á heimavelli í Lengjubikarnum á miðvikudagskvöld og svo hefst Pepsideildin með heimaleik gegn einmitt FH á þriðjudag eftir viku.