Glæsilegur árangur hjá 4.flokki á Rey-Cup

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Rey-Cup er alþjóðlegt knattspyrnumót sem Þróttur heldur í Laugardalnum ár hvert og hafa lið frá Aftureldingu verið þar fastagestir svo lengi sem elstu menn muna. Félagið sendi fjögur lið til keppni í 4.flokki að þessu sinni og var árangur þeirra með ágætum.

Kvennaliðinu gekk reyndar ekki sem skyldi en stelpurnar áttu engu að síður nokkra ágæta leiki og koma heim reynslunni ríkari. Karlaliðunum gekk betur og þar fór í fararbroddi A-liðið sem vann mótið með glæsibrag þegar það lagði Breiðablik í úrslitaleik. B-liðið varð í öðru sæti í sínum riðli og missti því naumlega af sæti í úrslitunum en C-liðið lék til úrslita gegn Fjarðabyggð og varð að játa sig sigrað og sætta sig við silfrið.

Þetta er samkvæmt heimildum fréttaritara líklega besti árangur Aftureldingar í 4.flokki karla á Rey-Cup frá upphafi og er strákunum og aðstandendum þeirra óskað til hamingju með það. Þjálfarar flokksins fá einnig bestu þakkir fyrir frábært starf en það eru bræðurnir Bjarki Már og Vilberg Sverrisson.

Stelpurnar áttu sem fyrr segir misjöfnu gengi að fagna inná vellinum en setja þetta í reynslubankann og mæta tvíefldar til leiks í næstu verkefni. Þjálfarar þeirra eru Aron Elfar Jónsson og Eydís Embla Lúðvíksdóttir.

Meðfylgjandi mynd er af sigurliði 4.karla í keppni A-liða