Helen lék 12 leiki með Aftureldingu í Pepsideildinni síðasta sumar og skoraði 7 mörk auk þess sem hún lék einn bikarleik. Mörk Helenar voru flest af dýrari gerðinni og sérlega eftirminnilegt stórkostlegt mark gegn Selfossi á útivelli og svo eitt mikilvægasta mark sumarsins sem hún gerði gegn Fylki í síðasta leik tímabilsins með þrumuskoti frá vítateig.
Helen er að upplagi framherji en lék gjarnan fremst á miðju í fyrrasumar og hélt um spottana í sóknarleik liðsins. Hún verður 27 ára síðar í þessum mánuði og hefur spilað í Englandi í vetur en hún lék einnig með Northwood University Seahawks í West Palm Beach í Florida á sínum tíma við góðan orðstír.
Helen sem er ættuð frá Rotherham í Englandi var valin í lið ársins í Pepsideildinni síðasta sumar og mun verða liði Aftureldingar mikill liðsstyrkur í sumar.
