Heppnin með meisturunum

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Leikið var við hinar bestu aðstæður þrátt fyrir óvænt sólarleysi. Bæði lið léku til sigurs og var fyrri hálfleikur nokkuð fjörlegur. Ekki mátti á milli sjá hvort liðið átti titil að verja og var jafnt á munum í leikhléi en hvorugu liðinu tókst að skora. Besta færi Aftureldingar átti Lára Kristín en Þór/KA átti einnig fáein færi sem þeim tókst ekki að nýta.

Í síðari hálfleik var áfram hart barist og loks brotnaði ísinn frægi þegar Íslandsmeisturunum tókst að skora laglegt skallamark eftir góða fyrirgjöf. Þrátt fyrir fyrirmyndarbaráttu og kraft tókst stelpunum okkar ekki að jafna metin og naumt tap því niðurstaðan í leikslok.

Afturelding átti mjög góðan dag, lék skipulega í vörn og lokaði miðjunni vel og allt liðið barðist vel frá fyrstu mínútu og þar til dómarinn blés til leiksloka. Liðið er greinilega á réttri leið og það munaði svo litlu að stelpurnar næðu í stig. Maður leiksins er því valin liðsheildin og Aftureldingarhjartað.

Norðanstúlkur léku vel og eru að komast á skrið eftir erfiða byrjun. Lið þeirra er mjög vel mannað og skapaði sér fleiri færi en heimamenn en það sættir sig án efa við eins marks sigur í nokkuð jöfnum leik.

Lið Aftureldingar: Megan – Guðný, Marcia, Jenna, Kristrún – Kristín (Hafdís 82), Lára Kristín, Aldís – Telma, Sigga, Valdís (Guðrún Ýr 75)

Nú verður tíu daga hlé á deildinni en næsti leikur er í Garðabæ við Stjörnuna í þarnæstu viku