Gríðarleg fjölgun hefur orðið í knattspyrnudeild Aftureldingar á síðastliðnum árum. Í upphafi ársins 2018 voru iðkendur í barna- og unglingaráði knattspyrnudeildar rúmlega 420 talsins en eru í dag 512. Þetta þýðir um 20% fjölgun iðkenda á 10 mánuðum sem er mikið ánægjuefni fyrir Aftureldingu sem er ein af fjölmennstu knattspyrnudeildum landsins.
„Við erum gríðarlega stolt af því vera komin með þennan iðkendafjölda. Markmiðið á þessu starfsári var að komast yfir 500 iðkenda múrinn og frábært að ná því strax yfir vetratímann,“ segir Guðbjörg Fanndal Torfadóttir, formaður barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar Aftureldingar. Guðbjörg hefur verið formaður ráðsins síðustu ár og hefur ásamt góðum hópi foreldra og velunnara haldið utan um starf deildarinnar.
„Við erum með frábæra þjálfara og Bjarki Már yfirþjálfari heldur vel utan um þá. Við gerum það besta sem við getum úr þeirri aðstöðu sem við höfum. Á álagstímum yfir vetramánuði erum við með c.a. 180 iðkendur á sama tíma á sama velli. Það er flókin staða en við reynum að vinna eins vel úr henni og við getum.“
Vöntun á félagsaðstöðu
Deildin hefur stækkað hratt á undanförnum árum og er knattspyrna langvinsælsta íþróttagreinin í Aftureldingu. Þessi hraða fjölgun er þó ekki án vandræða fyrir knattspyrnudeildina. „Það er okkur mjög mikilvægt að fá félagsaðstöðu fyrir þennan stóra hóp. Flestir eru að koma á æfingar beint úr skóla og þurfa að klæða sig, fá næringu og geyma dótið sitt á meðan æfingu stendur. Þetta er orðin gríðarlegur fjöldi og aðstaðan hjá okkur löngu sprungin,“ segir Guðbjörg.
Framtíðin er svo sannarlega björt í knattspyrnunni hjá Aftureldingu. Fjölgun hefur orðið í kvennaflokkum félagsins á síðastliðnum mánuðum og jákvætt að sífellt fleiri stelpur séu nú farnar að stunda knattspyrnu í Mosfellsbæ. Yfir 70 iðkendur eru í 6. og 7. flokki karla sem eru langfjölmennustu flokkarnir hjá knattspyrnudeildinni.
Myndir frá vorhátíð knattspyrnudeildar sl. vor.