Meistaraflokkur karla hjá Aftureldingu hefur leik í 2.deildinni í knattspyrnu á laugardag, 10.maí kl 16:00 þegar liðið tekur á móti KF. Aðalvöllurinn er ekki alveg klár í átökin og því verður leikið á gerfigrasinu.
Okkar mönnum er spáð góðu gengi í sumar þrátt fyrir nokkrar mannabreytingar og er m.a. spáð öðru sæti deildarinnar á Fótbolta.net. Mótherjarnir eru KF eða Knattspyrnufélag Fjallabyggðar sem er sameinað sveitarfélag Ólafsfjarðar og Siglufjarðar þaðan sem hin gamalkunnu lið Leiftur og KS komu á sínum tíma.
KF er spáð rétt fyrir neðan miðju enda hafa orðið miklar breytingar á þeirra hóp en ef að líkum lætur mætir baráttuglatt lið norðanmanna til leiks ákveðið í að þagga niðrí álitsgjöfum.
Aftureldingu hefur ekki gengið sérlega vel með KF og tapaði báðum leikjunum gegn þeim í fyrra. Stefnan er að sjálfsögðu sett á að gera betur í ár.
Það verður frítt á leikinn í boði meistaraflokks karla í þakklætisskyni fyrir góðar móttökur bæjarbúa í fjáröflunum vetrarins.