Jafnt á Seltjarnarnesi

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Knattspyrnudeild stóð fyrir pylsugrilli og rútuferðum á leikinn og mættu tveir vel setnir langferðabílar á Vivaldivöllinn rétt fyrir leik ásamt fjölda annarra Mosfellinga úr öllum áttum. Fjölmenni þetta blés Aftureldingarmönnum mikinn baráttuanda í brjóst og var aðeins eitt lið á vellinum í fyrri hálfleik.

Maggi og Breki voru funheitir í sóknarleiknum ásamt hinum spænska Fernando sem fór á kostum og átti sinn besta leik í sumar a.m.k. sem fréttaritari hefur séð og Gróttumenn áttu í vök að verjast. Snemma leiks en þó líklega í fimmtándu sókn Mosfellinga dæmdi hinn landsþekkti dómari leiksins, Gunnar Jarl, vítaspyrnu en Kristinn Jens gleymdi að taka tilhlaup og markmaður Gróttverja nýtti sér það og varði.

Gróttungar voru þó ekki lengi í paradís því Kristinn skoraði með skalla stuttu seinna og staðan 1-0 fyrir Aftureldingu. Þrátt fyrir látlausa sókn og allmörg álitleg færi vildi boltinn þó ekki inn aftur fyrir hlé og liðin héldu til tedrykkju að því búnu.

Í upphafi síðari hálfleiks kom svo eitt af mörkum aldarinnar í 2.deild í sumar þegar Aftureldingarmenn tættu í sig vörn Gróttara í mikilli leiftursókn og endaði knötturinn hjá Wentzel Steinarri rétt utan vítateigshorns, sem snart hann himinborinni tá og sendi í fagursköpuðum boga óverjandi í fjærhornið við mikinn fögnuð samherja og áhorfenda. Mun Markið verða til umfjöllunar hjá greiningardeildum bankanna næstu vikur, svo rándýrt var kveðið.

En Gróttlingar eru frambærilegir á velli og þeir sóttu í sig veðrið í einmuna blíðunni á nesinu og minnkuðu muninn skömmu síðar. Eftir þetta skiptust bæði lið á að sækja og var leikurinn hin besta skemmtan fyrir áhorfendur en því miður fyrir fjölmarga gesti náðu heimamenn að jafna leikinn tíu mínútum fyrir leikslok. Þrátt fyrir nokkrar góðar tilraunir og eitt sannkallað dauðafæri náðu Aftureldingarmenn ekki sigurmarkinu og 2-2 jafntefli niðurstaðan í leik sem á köflum var hreint afbragð að horfa á.

Afturelding og Grótta eru því enn jöfn í öðru og þriðja sæti deildarinnar en ÍR er enn með góða forystu í fyrsta sætinu.

Knattspyrnudeild vill þakka þeim fjölmörgu Mosfellingum sem mættu á völlinn en það fór ekkert á milli mála að strákarnir okkar efldust mjög við stuðninginn. Næst leikur Afturelding gegn Njarðvík að Varmá á laugardaginn eftir viku.