Það viðraði vel til að þrífa regnhlífar, regnskúrir en stillt og áhorfendur fengu mikið fyrir peninginn að þessu sinni. Völlurinn virtist þó nokkuð erfiður, blautur og leikmenn í vandræðum með að fóta sig og stilla af sendingar til að byrja með. Einar Marteinsson meiddist í upphitun og Enes og Baldvin þurftu að gera óvænta breytingu á byrjunarliðinu og settu inn Andra Hrafn Sigurðsson sem stóð sig svo með prýði í leiknum.
Eftir rólegan upphafskafla þar sem gestirnir virtust sáttir við að sitja til baka og bíða átekta fór að draga til tíðinda eftir um hálftíma leik. Alexander Aron komst í dauðafæri en ákvað að gefa boltann frekar en að klára sjálfur. Dalvíkingar þustu í sókn stuttu síðar og komust í hættulegt færi en boltinn small í stöng. Stuttu síðar átti Steinarr Wentzel þrumuskot sem var vel varið og það lá því í loftinu að eitthvað myndi gerast þegar Helgi Sigurðsson var mættur, réttur maður á réttum stað í teignum og skallaði boltann í mark gestanna og staðan 1-0 fyrir Aftureldingu.
Örfáum mínútum síðar setti Helgi svo boltann í stöngina eftir góða sókn og eftir enn eina flotta sókn heimamanna varð varnarmaður gestanna fyrir því að skalla boltann í eigið mark eftir hættulega fyrirgjöf frá Þorgeiri Leó. Afturelding fór því með 2-0 forystu í leikhléið og áhorfendur sáttir við leik sinna manna.
Eitthvað komu menn værukærir til leiks eftir hlé og leikurinn var vægast sagt viðburðarlítill til að byrja með. Okkar menn misstu taktinn og smám saman áttuðu gestirnir sig á því og tóku leikinn í sínar hendur. Eftir um 65.mínútna leik minnkuðu þeir muninn með laglegu skallamark og rúmum fimm mínútum síðar fengu þeir víti og jöfnuðu leikinn 2-2. Upprisa Norðanmanna náði svo hámarki þegar þeir komust yfir á 82.mínútu 2-3 en reyndar virtist brotið á Andra í aðdraganda marksins án þess að dómarinn gerði athugasemd.
Okkar menn bitu hinsvegar frá sér í lokin og gerðu harða atlögu að marki gestanna. Helgi Sigurðsson prófaði tréverkið í annað sinn þegar hann setti boltann í slá og stuttu síðar var Helgi enn á ferðinni eftir þunga sókn og náði að koma knettinum í netið og jafna leikinn 3-3. Rétt á eftir skoraði Magnús Már að því virtist löglegt mark eftir glæsilegan sprett frá Arnóri Þrastar sem lék upp að endamörkum og gaf fyrir á Magga en eitthvað sá aðstoðardómarinn athugavert og flaggaði markið af.
Eftir þessi úrslit er Afturelding í þriðja sæti deildarinnar, stigi á eftir HK en tveimur á eftir KV. Næst tökum við á móti Sindra á laugardag eftir viku.
Maður leiksins var valinn Helgi Sigurðsson sem skoraði tvö mörk og var sífellt ógnandi í sóknarleik Aftureldingar.