Jafntefli í baráttuleik á Selfossi

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Selfoss byrjaði leikinn með látum í blíðviðrinu á Já-Verk vellinum á Selfossi og strax í upphafi gerði Guðmunda Brynja Óladóttir sig líklega með skallafæri inní teig. En Afturelding vann sig smám saman inn í leikinn og sótti sífellt meira. Eftir 8 mínútur komst Helen Lynskey ein í gegn og náði til knattarins á undan markmanni Selfoss en skot hennar úr þröngu færi var varið á línu.

Stuttu síðar komst Stefanía Valdimarsdóttir í gegn en varnarmaður Selfyssinga náði frábærri tæklingu á síðustu stundu og bjargaði í horn. Uppúr horninu átti Sigríður Þóra Birgisdóttir ágætt skot sem vörnin bægði frá en frákastið féll fyrir Eddu Maríu Birgisdóttur sem skaut yfir.

Þegar hér var komið við sögu var aðeins eitt lið á vellinum, Sigga vann horn og Inga Dís Júlíusdóttir tók hornið, gaf stutt á Siggu sem átti gott skot og Courtney Conrad fékk einnig fínt færi en Selfyssingar björguðu í enn eitt hornið.

Það kom því sem þruma úr heiðskíru lofti þegar Selfoss náði forystu. Erna Guðjónsdóttir féll við litla snertingu þegar hún og Heiðrún Sunna Sigurðardóttir áttust við fyrir utan vítateig Aftureldingar og Erna tók spyrnuna sjálf og setti boltann laglega yfir vegginn og í markhornið fjær án þess að Mist næði til knattarins. Staðan 1-0 en okkar stelpur létu ekki hugfallast. Inga Dís lék innað vítateig og átti gott skot og Stefanía sömuleiðis og stuttu síðar varði markmaður Selfoss vel frá Stefaníu sem var hættuleg í fyrri hálfleiknum.

Helen átti svo þrumuskot sem vörnin varði í horn og eftir rúman hálftíma hlaut eitthvað að láta undan hjá heimastúlkum. Sigga braust af miklu harðfylgni uppað endamörkum og gaf fyrir en varnarmaður Selfyssinga skallaði boltann útúr teig þar sem Helen beið og tók hann viðstöðulaust á lofti og þrumaði knettinum í markhornið, óverjandi fyrir markmanninn og staðan orðin jöfn 1-1.

Þannig stóð í leikhléi og var Afturelding mun betra liðið og hefði líklega átt að vera búið að gera fleiri mörk fyrir hlé.

Síðari hálfleikur var tíðindaminni. Selfoss byrjaði aftur vel en Afturelding tók aftur völdin. Eftir um klukkutíma leik gerði Gunnar Borgþórsson tvöfalda skiptingu og virtist hitta í mark með henni því Selfoss náði eftir þetta að halda Aftureldingarliðinu frá hættulegum færum.   

Helstu færi síðari hálfleik voru langskot frá Guðmundu Brynju fyrir Selfoss en okkar megin átti Courtney skot í hliðarnetið eftir laglegan undirbúning Helen en þrátt fyrir mikla baráttu beggja liða urðu mörkin ekki fleiri og úrslitin því 1-1 í stórskemmtilegum leik.

Lið Aftureldingar lék mjög vel og hefði með smá heppni átt að taka stigin þrjú og hefði líklega átt þau skilið þegar allt er gert upp. Allir leikmenn liðsins léku vel og erfitt að velja einn öðrum fremur en maður leiksins að þessu sinni er valin Helen Lynskey sem átti stjörnuleik á miðjunni auk þess að skora þetta frábæra mark.

Lið Aftureldingar:
Mist
Kristrún – Hrefna – Lilja – Inga Dís
Heiðrún – Helen – Edda María (Steinunn 62)
Stefanía (Kristín Þóra 68) – Sigga (Kristín Ösp 85) – Courtney