Hrefna Guðrún er 18 ára gömul og hóf feril sinn hjá Aftureldingu og á m.a. Íslandsmeistaratitil með 5.flokki félagins. Hún lék með yngstu aldursflokkunum þar til hún flutti í Kópavoginn og skipti í kjölfarið yfir í Breiðablik þar sem hún var í tæp fjögur ár.
Hrefna kom aftur í Aftureldingu um mitt sumar 2013 og lék alla átta leiki meistaraflokks sem eftir voru það tímabilið og hún lék alla átján leiki liðsins í sumar í byrjunarliði.
Hún á 6 leiki með U17 landsliði Íslands og 2 með U19 en Hrefna er með samning við félagið út næsta tímabil og eru bundnar miklar vonir við hana í framtíðinni.
Arnór Breki er 16 ára og er uppalinn í Aftureldingu. Hann lék bæði með 3. og 2. flokki félagsins í sumar og stóð sig afar vel. Breki skoraði 9 mörk í átta leikjum með 3.flokki en hann lék alla 18 leiki sumarsins með 2.flokki og skoraði þar 10 mörk.
Breki fékk svo tækifærið með meistaraflokki í síðasta leik sumarsins þar sem hann lék allan leikinn í mikilvægri viðureign við Ægi í 2.deildinni eftir að hafa komið inná sem varamaður gegn Gróttu viku fyrr.
Þá hefur Breki leikið 3 leiki með U17 landsliði Íslands.
Knattspyrnudeild óskar Hrefnu Guðrúnu og Arnóri Breka hjartanlega til hamingju með valið.