Afturelding bætir við sig leikmanni fyrir komandi átök í INKASSO deild kvenna í sumar en miðjumaðurinn Krista Björt Dagsdóttir er komin til félagsins frá Fjölni. Krista Björt sem fædd er árið 2000 er uppalin hjá Fjölni en lék með Gróttu í 2.deild kvenna á síðasta tímabili. Þá á Krista Björt leiki fyrir Fjölni í 2.deild kvenna árið 2017.
Undanfarnar vikur hefur Krista Björt æft og spilað með Aftureldingu og heillað forráðamenn félagsins sem telja hana unga og efnilega og hafa alla burði til þess að verða einn af lykilmönnum félagsins á komandi árum.
Þá skrifaði Halla Þórdís Svansdóttir undir samning við Aftureldingu en hún er uppalin í Mosfellsbænum og gerir sinn fyrsta samning við félagið. Halla Þórdís er fædd árið 2002 og á fjóra leiki að baki fyrir meistaraflokk í bikarkeppni og Íslandsmóti. Halla Þórdís er virkilega spennandi leikmaður og bindur félagið miklar vonir við hana í framtíðinni.
Um leið og við óskum þeim báðum til hamingju með samninga þá viljum við bjóða Kristu Björt hjartanlega velkomna til félagsins.
Mynd frá vinstri: Krista Björt og Halla Þórdís