Langþráður sigur í höfn í Pepsideild kvenna

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Fyrir leik var ljóst að hér yrði um athyglisverða viðureign að ræða enda hvorugt lið komið með stig í pottinn eftir erfiða byrjun í deildinni. Það kom fljótt í ljós að það var Afturelding sem kom ákveðnari til leiks og má segja að fyrri hálfleikur hafi verið eign heimaliðsins þó gestirnir hafi átt sína spretti inná milli.

Fyrsta markið kom eftir aðeins sex mínútur og var sögulegt í meira lagi því þar var á ferðinni Sigríður Þóra Birgisdóttir sem var að leika sinn hundraðasta meistaraflokksleik fyrir Aftureldingu og hélt hún uppá þann áfanga með sínu þrítugasta og öðru marki. Knötturinn barst inní vítateig þar sem varnarmaður ÍA setti fótinn í boltann en Sigga var klók og náði að stýra boltanum yfir markmann ÍA og í netið.

Eftir 25 mínútur var komið að Amy Marron sem skallaði boltann af afli í markið eftir laglegan undirbúning Helen Lynskey og það var svo Helen sem gerði þriðja markið stuttu fyrir hlé með langskoti sem markmaður ÍA er líklega býsna ósáttur við að hafa ekki náð að halda en ekki er spurt að því og staðan 3-0 í hálfleik fyrir Aftureldingu og útlitið óneitanlega bjart.

Akranes er staður þar sem að gefast upp er ekki til í orðabókum og Skagastúlkur mættu öflugar til leiks eftir hlé. Guðrún Karitas Sigurðardóttir minnkaði muninn snemma og ÍA átti nokkur hættuleg upphlaup en ekki tókst þeim að skora fleiri mörk og eftir að Ingunn Dögg Eiríksdóttir var rekin af leikvelli eftir tæklingu á Mist Elíasdóttur var mesti krafturinn úr gestunum. Afturelding sigldi sigrinum heim og toppaði hann með marki Stefaníu Valdimarsdóttur sem setti pressu á varnarmenn ÍA og skoraði eftir langa sendingu Hrefnu Guðrúnar í uppbótartíma. Úrslitin 4-1 og mikil ánægja í herbúðum Aftureldingar með að vera komin á blað og geta nú byrjað mótið fyrir alvöru.

Allt liðið okkar lék vel að þessu sinni. Mist stýrir sínu liði vel úr markinu og var örugg í sínum aðgerðum en hefur oft haft meira að gera. Kristrún var öflug í bakverðinum vinstra megin og Eva Rún hefur vaxið mjög í sumar og var góð hægra megin. Hrefna Guðrún átti frábæran leik og nýtur þess greinilega að spila í miðri vörninni með Amy sem átti einmitt stórleik í dag og kvittaði fyrir það með glæsilegu skallamarki.

Lilja Dögg og Berglind unnu afar vel á miðjunni og Helen batt saman miðju og sókn með prýði og stýrði leik liðsins vel. Systurnar Sigga og Kristín Þóra voru einnig sprækar og Sigga hélt uppá sinn 100 leik með marki. Brynja kom inná miðjuna í síðari hálfleik og stóð sig vel og þær Stefanía og Valdís kláruðu leikinn í sókninni og Stefanía notaði tækifæri og skoraði sitt fyrsta meistaraflokksmark.

Maður leiksins var fremst meðal jafningja í flottum liðssigri Aftureldingar en það er Sandra Dögg Björgvinsdóttir fyrirliði sem fær nafnbótina en Sandra var að leika sinn fyrsta leik í byrjunarliði í langan tíma eftir meiðsli. Sandra stóð sig afar vel, leiddi sitt lið áfram og barðist af miklum krafti þann rúma klukkutíma sem hún lék.

Lið Aftureldingar:
Mist
Eva – Hrefna – Amy – Kristrún
Berglind – Lilja – Sandra (Brynja 63)
Helen
Sigga (Stefanía 70) – Kristín Þóra (Valdís 72)