Lára Kristín Pedersen framlengir við Aftureldingu

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Lára Kristín er aðeins 18 ára gömul, hún er miðjumaður og þrátt fyrir ungan aldur hefur hún verið ein af máttarstólpum meistaraflokks Aftureldingar. Hún hefur spilað 53 leiki í Pepsí-deildinni og bikarkeppni KSÍ, þar sem hún hefur skorað 7 mörk. Hún var aðeins 15 ára gömul þegar hún spilaði sinn fyrsta leik með meistaraflokki.

Lára kristín hefur spilað fjölda leikja með yngri landsliðum Íslands, þar af 15 leiki með U17, 9 leiki með U19 og einn leik með U23. Hún er því þegar farin að banka fast á dyr A-landsliðsins.

Afturelding er mjög stolt af Láru Kristínu fyrir störf hennar utan vallar sem innan og ekki síst hvað hún sýnir uppeldisfélagi sínu mikla hollustu. Hún er einn efnilegasti miðjumaður Íslands og á eftir að láta mikið til sín taka í framtíðinni. Eins áður hefur komið fram mun Lára Kristín spila með Aftureldingu í Pepsí-deildinni næsta sumar, þar sem félagið er að spila sjötta árið í röð. Fyrir næsta tímabil stefnir félagið á efri hluta Pepsí-deildarinnar og mun því styrkja lið sitt með nokkrum sterkum leikmönnum.