Naumt tap gegn Íslandsmeisturunum

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Strákarnir okkar tóku sem kunnugt er sæti Tindastóls í A-deild Lengjubikarsins og hafa verið að leika gegn býsna sterkum andstæðingum hingað til en fyrstu tveir leikirnir voru gegn Suðurnesjaliðunum Keflavík og Grindavík.

Stóra prófið var svo á laugardag þegar sjálfir Íslandsmeistarar KR mættu til leiks í þriðju umferð og áttu margir von á að það yrði brött brekkan hjá Mosfellingum í þessum leik.

Annað kom á daginn og strákarnir okkar mættu með krafti í leikinn. KR hafði vissulega meira af boltanum í fyrri hálfleik en náði ekki að skapa opin færi gegn vel skipulagðri vörn Aftureldingar. Má segja að einu mistök okkar manna hafi átt sér stað eftir korters leik þegar Baldur Sigurðsson fylgdi vel á eftir og vann frákastið eftir að Bjartur hafði varið vel. Staðan 1-0 fyrir KR í hálfleik.

Í síðari hálfleik var svipað uppá teningnum. KR hafði boltann meira en lítið kom útúr því og fá færi sem eru minnisstæð. Strákarnir okkar áttu sínar skyndisóknir, Elvar Ingi komst í gegn og reyndi að vippa yfir Stefán Loga í marki KR en boltinn aðeins of laus. Alexander Aron var að því er virtist togaður niður við vítateigshorn en ekkert dæmt en síðan komst Elli í gegn eftir stungu og hristi Grétar Sigfinn varnarmann KR af sér og setti boltann framhjá Stefáni markmanni og staðan jöfn 1-1.

Þegar leiktíminn var að renna út og stigið um það bil að ganga í hús átti sér stað smávegis árekstur inni í vítateig þegar Kjartan Henry reyndi að komast í gegnum Birgi Frey fyrirliða sem augljóslega er ekki hægt. Birgir og Kjartan féllu báðir við og knettinum var leikið áfram út á kantinn án frekari tafa enda menn áhugasamir um að halda áfram leiknum.

Heyrðist þá öllum að óvörum flaut frá dómara leiksins sem hafði fengið ábendingu frá línuverði í þrjátíu metra fjarlægð sem einhvernveginn þóttist sjá að Birgir Freyr hefði verið brotlegur. Ekki er hægt að sjá á myndbandsupptöku að um brot væri að ræða enda kallaði enginn KR-ingur eftir víti í fyrstu.

Aron Bjarki Jósepsson skoraði örugglega úr vítinu og tryggði þar með KR sigur en okkar menn geta gengið afar stoltir af velli enda stóðu þeir vel í Íslandsmeisturunum og hefðu átt stigið skilið. En það verður nóg að leggja í reynslubankann eftir þennan leik. Afturelding á heimaleik í næstu umferð gegn BÍ/Bolungarvík og verður sá leikur leikinn í Akraneshöllinni á laugardag eftir viku.