Fundurinn var ágætlega sóttur og fór vel fram undir styrkri stjórn Hafsteins Pálssonar fundarstjóra. Flutt var skýrsla stjórnar fyrir undangengið tímabil og reikningar og fjárhagsáætlanir kynntar. Fram kom að afkoma Barna- og Unglingaráðs er prýðileg sem og meistaraflokks karla en meistaraflokkur kvenna var rekinn með nokkru tapi sem þó er langt komið með að leiðrétta. Sameiginleg rekstrarniðurstaða knattspyrnudeildar er réttu megin við núllið og jákvætt að aldrei hafa verið fleiri iðkendur hjá deildinni.
Óli Valur Steindórsson var einróma endurkjörinn formaður knattspyrnudeildar og auk hans voru kjörin í stjórn deildarinnar þau Emil Viðar Eyþórsson, Friðrik Már Gunnarsson, Guðbjörg Fanndal Torfadóttir, Halldór Halldórsson, Hallur Birgisson og Rúnar Þór Haraldsson.
Samþykkt var á fundinum tillaga stjórnar um að aðalfundur deildarinnar verði héðan í frá haldinn í október ár hvert en aðalstjórn félagsins hefur þegar lagt blessun sína yfir þann ráðahag.
Knattspyrnudeild þakkar fundargestum og starfsmönnum fundarins fyrir komuna og eru sérstakar þakkir færðar fráfarandi gjaldkera BUR, Sigurði Rúnari Magnússyni fyrir hans framlag til félagsins undanfarin ár.
Afturelding – knattspyrnudeild fridrikgunn@gmail.com