Það var prýðileg mæting á gamla góða Varmárvöll sem nú heitir N1 völlurinn þegar Reynir kom í heimsókn í 2.deild karla í knattspyrnu. Leikurinn hófst með látum og eftir aðeins fimmtán mínútur var staðan orðin 2-0 eftir mörk frá Magnúsi Má Einarssyni og Alexander Aron Davorssyni. Má segja að úrslitin hafi þá þegar verið ráðin en þrátt fyrir nokkra ágæta spretti frá Reynismönnum voru heimamenn einfaldlega mun betri og kláruðu nánast leikinn rétt fyrir hlé þegar Arnór Snær Guðmundsson skoraði þriðja markið.
Síðari hálfleikur var leikinn á heldur rólegra tempói og var frekar tíðindalítill og lokastaðan reyndist 3-0 fyrir Aftureldingu. Liðið lék afbragðsvel, sérstaklega á köflum í fyrri hálfleik þegar strákarnir léku hratt sín á milli og sýndu flott spil. Reynir ógnaði ekki mikið og varnarmenn Aftureldingar og Anton markmaður stöðvuðu þær tilraunir sem þeir þó áttu. Maður leiksins var valinn Þorgeir Leó Gunnarsson sem hefur átt gott tímabil og er sívaxandi í bakvarðarstöðunni bæði í vörn og ekki síður í sóknarleik liðsins upp kantinn vinstra megin.
Afturelding skaust með sigrinum upp í annað sæti deildarinnar með þrettán stig, einu stigi á eftir KV sem vann ÍR sem var á toppnum eftir síðustu umferð. Í humátt í toppbaráttunni kemur HK og svo Dalvík/Reynir sem Afturelding heimsækir einmitt í næsta leik eftir rúma viku.