Ósigur í Eyjum

Knattspyrnudeild Knattspyrna

ÍBV er með öflugt lið og varð í öðru sæti deildarinnar í fyrra þannig að búast mátti við erfiðum leik. Stelpurnar okkar komu þó fullar sjálfstrausts til leiks og léku prýðilega á köflum og sköpuðu sér mörg færi til að skora en inn vildi boltinn ekki.

Heimaliðið var beittara uppvið markið og gerði þrjú mörk fyrir hlé og fór því með örugga forystu inní síðari hálfleik. Eftir góða byrjun eftir hlé dró aðeins af stelpunum okkar og ÍBV bætti við tveimum mörkum í lokin og vann því örugglega en klárlega fullstórt.

Heimildarmenn fréttaritara voru nokkuð ánægðir með fyrri hálfleikinn og töldu að Afturelding hefði þá átt að ná inn marki en í síðari hálfleik voru heimamenn betri og sigldu heim sigrinum. Sum mörk Eyjaliðsins voru í ódýrari kantinum en þá er bara að setja kraft í að laga það sem fór úrskeiðis í aðdraganda þeirra.

John Andrews þjálfari liðsins var þrátt fyrir ósigurinn nokkuð ánægður með sitt lið sem hélt sig vel við það leikplan sem sett var upp, skapaði sér allmörg færi og pressaði vel á lið ÍBV. Hann taldi hraða sóknarmanna ÍBV hafa fyrst og fremst skilið á milli og nefndi sérstaklega hina knáu Shaneeka Gordon sem olli usla í vörn Aftureldingar.

Það er ljóst að Aftureldingar bíður hörkubarátta í sumar en John er alls óhræddur, segir sínar stelpur vanar baráttunni og tilbúnar í slaginn. Næsta verkefni er heimaleikur við bikarmeistara Stjörnunnar í Borgunarbikarnum en Stjarnan er einnig á toppi Pepsideildarinnar með fullt hús stiga.