Stjarnan hafði betur

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Það var þó ekki margt sem benti til þess að heimastúlkur myndu ljúka leik með örugga forystu því Afturelding átti mjög góðan leik í fyrri hálfleik og réð ferðinni á köflum. Færi Stjörnunnar voru fá á meðan Mosfellingar gerðu sig líklega hinu megin. Megan markmaður blakaði einum lúmskum bolta yfir en það var allt og sumt en Telma átti tvo prýðisskot að marki Stjörnunnar án árangurs. Um miðjan fyrri hálfleikinn hrökk þó einhvernveginn boltinn af tveimur varnarmönnum okkar og Rúna Sif stóð skyndilega ein gegn markmanni og kláraði vel í nærhornið. Staðan 1-0 í hálfleik fyrir toppliðið.

Í síðari hálfleik hófu Aftureldingarstúlkur leikinn af krafti og eftir um tíu mínútna leik lék Telma upp völlinn, dró til sín varnarmenn og sendi svo boltann á Aldísi sem hamraði hann inn í fjærhornið framhjá landsliðsmarkmanni Stjörnunnar á glæsilegan hátt og stuðningsmenn Aftureldingar ærðust af fögnuði í stúkunni.

Áfram hélt spennan en tíu mínútum eftir jöfnunarmarkið fengu okkar stúlkur á sig mark sem úr stúkunni sýndist skorað af kolrangstæðri Hörpu Þorsteinsdóttur. Þrátt fyrir mótbárur fékk markið að standa og Stjarnan komin með forystuna.

Síðustu tuttugu mínúturnar komu svo gæði Stjörnunnar í ljós og þær lönduðu sigri með tveimur mörkum í viðbót frá Hörpu og ein frá Írunni Aradóttur undir lokin. Liðið er yfirburðalið í deildinni í ár, með fjórar landsliðskonur í lokahóp fyrir EM og með reynslu úr Meistaradeild þannig að það var e.t.v. til of mikils ætlast að ná stigi þaðan en stelpurnar okkar spiluðu virkilega vel lengst af og gáfu sig alla í þetta erfiða verkefni fyrir félagið sitt.

Allar lögðu þær sig 100% fram og líklega ósanngjarnt að nefna þar einn leikmann öðrum fremur. Sandra lék vel á miðjunni sem og Aldís sem kórónaði fínan leik sinn með glæsilegu marki og Marcia var yfirveguð í vörninni, stundum fullmikið fyrir stressaða stuðningsmenn, sem og Megan sem stóð vaktina vel í markinu. Maður leiksins er þó valin með minnsta mun, Jenna Roncarati sem átti virkilega góðan leik í miðri vörninni.

Mynd: Aldís Mjöll Helgadóttir skoraði mögulega mark ársins fyrir Aftureldingu í kvöld !