Það var mikið um að vera á vellinum frá því að dómarinn flautaði leikinn á. Bæði lið ákveðin að ná í stig og spennustigið hátt. Eftir átta mínútna leik skoraði Sigríður Þóra Birgisdóttir glæsilegt skallamark eftir hornspyrnu en dómari leiksins ákvað að dæma markið ógilt við lítinn fögnuð. Fréttaritari sá ekkert athugavert við markið en óljósar fregnir bárust um að dæmd hefði verið hindrun á Jennu Roncarati sem hafði tekið sér stöðu í markteignum og var talin hafa truflað markvörð FH.
Aðeins mínútu síðar þustu gestirnir í sókn og eitthvað voru stelpurnar okkar enn að furða sig á fyrrnefndu atviki því þær hvítu og svörtu fengu litla mótspyrnu og náðu forystunni 0-1. FH lét svo kné fylgja kviði og bætti við öðru marki eftir tuttugu mínútur og útlitið ekki bjart hjá Aftureldingu. En þá greip Telma Hjaltalín Þrastardóttir til sinna ráða og slapp tvívegis með stuttu millibili í gegnum vörn FH og skoraði tvö snögg mörk og leikurinn orðinn jafn. Fyrsta mark Telmu var sérlega glæsilegt þegar hún stakk varnarmann af eftir laglega sendingu frá Kristínu Tryggvadóttur og lyfti boltanum yfirvegað í fjærhornið. Undir lok hálfleiksins var svo komið að Sigríði Þóru að bæta við þriðja markinu eftir snyrtilegt uppspil hjá Telmu og Kristínu og Afturelding fór inní leikhléið með 3-2 forystu.
Í síðari hálfleik var áfram hart barist, bæði lið áttu m.a. skot í stangir og þverslá og sóknarlotur buldu á vörnum beggja liða til skiptis. Snemma í hálfleiknum slapp Telma enn í gegn eftir hárnákvæma stungu frá Siggu og skoraði þriðja markið sitt og fékk reyndar færi að bæta enn við en það var svo Danielle Sheehy sem innsiglaði sigur Aftureldingar í uppbótartíma eftir langa sendingu Hrefnu Guðrúnar úr vörninni og úrslitin 5-2 staðreynd.
Afturelding lék skínandi vel í þessum leik og stelpurnar komu tvíefldar til baka eftir tapið í síðasta leik. Vörnin stóð sig afar vel, e.t.v. að undanskildum smákafla í fyrri hálfleik þegar einhver misskilningur sveif yfir vötnum en smám saman var hann úr sögunni og liðið allt náði sér á strik eftir erfiðar upphafsmínútur. Hrefna Guðrún Pétursdóttir og Jenna Roncarati voru öflugar og Ingunn Haraldsdóttir átti fyrirmyndarleik sem og Kristún Halla Gylfadóttir. Á miðjunni börðust þær Cecilia Marrero og Eydís Embla Lúðvíksdóttir sem hetjur og Kristín Tryggvadóttir átti góða spretti í sóknarleiknum sem og Danielle Sheehy sem átti fína innkomu í síðari hálfleik. Sigríður Þóra var dugleg að vanda en á engan er þó hallað þegar maður leiksins er valinn Telma Hjaltalín Þrastardóttir sem spilaði sem engill og skoraði þrennu. Telma sótti leikinn í gin ósigursins með því að jafna metin nánast uppá eigin spýtur og átti líklega sinn besta leik í sumar.
Næsti leikur er á útivelli gegn Breiðablik á miðvikudaginn í næstu viku.