Strákarnir biðu lægri hlut gegn ÍR

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Það var boðið uppá hörkuleik á Varmárvelli og mikil barátta í leikmönnum beggja liða. Eftir nokkuð tíðindarlitla byrjun á leiknum komust ÍR-ingar skyndilega í sókn og náðu að skora eftir 24 mínútur og staðan orðin 0-1. Afturelding lét það þó ekki á sig fá og reyndi af kappi að jafna metin en tókst ekki fyrir hlé.

Stuttu eftir að síðari hálfleikur var hafinn dró þó til tíðinda þegar Hilmir Ægisson jafnaði metin eftir þunga sókn heimamanna. ÍR-ingar gáfust þó ekki upp og áttu nokkrar sóknir í kjölfar jöfnunarmarksins og uppskáru að lokum mark og komust þar með aftur yfir.

Um miðjan hálfleikinn fékk svo Þorgeir Leó Gunnarsson sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir það sem fréttaritara sýndist lögleg tækling en völlurinn var blautur og e.t.v. hefur að haft eitthvað að segja með að dómara leiksins fannst ástæða til að spjalda.

Það sem eftir lifði leiks sótti Afturelding af kappi og freistaði að jafna leikinn en ÍR nýtti sér það og fékk nokkrar hættulegar skyndisóknir sem hæglega hefðu getað endað með marki. Anton markmaður var traustur og varði vel og hélt okkar mönnum inní leiknum á þessum kafla en það dugði ekki til og úrslitin 1-2

Þar með er fyrsta tap ársins staðreynd og Afturelding sígur um eitt sæti, niður í það fjórða eftir leiki dagsins. Næsti leikur er á föstudaginn kemur í Hveragerði gegn Hamri. Maður leiksins hjá heimamönnum var valinn Hilmir Ægisson sem barðist vel inná miðjunni og skoraði mark liðins.

Mynd: Raggi Óla