Það var ágætis mæting á Varmárvelli, ríflega 150 áhorfendur og boðið var uppá prýðis fótbolta á köflum á iðagrænum Varmárvelli. Bæði lið virtust ákveðin í að skora og var nokkuð jafnræði með þeim framanaf hálfleik. Eftir rúman hálftíma leik var ísinn loks brotinn þegar Magnús Már Einarsson skoraði með þrumuskoti eftir snarpa sókn upp hægri kantinn. Afturelding var sterkari aðilinn eftir markið en Njarðvík átti þó sína spretti og virðist vera með prýðislið.
Í síðari hálfleik bættu þeir Arnór Snær Guðmundsson og Wentzel Steinarr Ragnarsson Kamban við sitthvoru markinu og sigurinn í höfn þó Njarðvík laumaði inn einu marki í uppbótartíma. Afturelding spilaði einum færri síðustu tuttugu mínúturnar eftir að Hilmi Ægissyni var vikið af velli með tvö gul spjöld.
Sigurinn var sanngjarn hjá okkar mönnum en mótherjarnir léku þó ágætlega og virtust til alls líklegir, sérstaklega í fyrri hálfleik þegar þeir áttu nokkrar fínar sóknir. Njarðvík er spáð sjötta sæti deildarinnar en miðað við leik þeirra er jafnvel aðeins verið að vanmeta þeirra lið.
Allir leikmenn Aftureldingar léku vel og sigurinn var liðsheildarinnar. Steinar og Hilmir Ægissynir voru öflugir á miðjunni, Steinar alveg frábær en Hilmir fær smá mínus fyrir spjöldin tvö. Egill, Wentzel Steinarr, Magnús Már og Elvar Ingi léku vel í framlínunni og má vænta þess að uppspil Aftureldingar, fyrirgjöf Elvars og afgreiðsla Steinarrs í þriðja marki Aftureldingar verði notað í kennslubókum framtíðarinnar. Vörnin var sterk og Anton var vel á verði í markinu. Fremstur meðal jafningja í kvöld lék þó fyrirliði Aftureldingar, Arnór Snær Guðmundsson sem kórónaði flottan leik sinn í hjarta varnarinnar með glæsimarki.