Stelpurnar okkar byrjuðu leikinn vel og það kom fljótt í ljós að þær voru afar vel stemmdar og komu greinilega vel undirbúnar til leiks. Fylkir fékk lítinn tíma til athafna sig með boltann og komust þær lítið áleiðis gegn vel skipulögðum Mosfellingum. Helstu sóknartilburðir heimaliðsins í fyrri hálfleik voru með langskotum eða föstum leikatriðum en þeim tókst ekki að skapa teljandi hættu upp við mark Aftureldingar.
Okkar stelpur áttu nokkra lipra spretti, Stefanía átti tvær tilraunir sem Þóra Björg Helgadóttir landsliðsmarkmaður varði, Sigga átti skot í slá og nýji framherjinn okkar, Courtney Conrad átti einnig skot sem Þóra þurfti að vanda sig við að verja. En hvorugu liðinu tókst að skora og staðan markalaus í leikhléi.
Síðari hálfleikur spilaðist svipað, Fylkisliðið hélt boltanum e.t.v aðeins meira en þær náðu ekki að opna vörn Aftureldingar svo heitið gat. Hinu megin komu nokkrar lofandi skyndisóknir, Stefanía var nálægt því að skora og systurnar Sigríður Þóra og Kristín Þóra komust báðar í efnileg færi en inn vildi boltinn ekki. Fylkir átti tvær eftirminnilegar sóknir, Mist varði mjög vel í annað skiptið og í hitt bauð Amy Marron uppá listagóða tæklingu á ögurstundu og allt stefndi í markalaust jafntefli.
En fjórum mínútum fyrir leikslok fékk Fylkir aukaspyrnu út við hliðarlínu vinstra megin. Leikmaður þeirra spyrnti frekar laust inn að nærstöng þar sem boltinn hrökk af Fylkisstúlku útí teig þar sem Ruth Þórðardóttir var snögg að átta sig og þræddi boltann í gegnum þvöguna og í markið, 1-0 fyrir Fylki og þrátt fyrir hetjulegar tilraunir gestanna til að finna jöfnunarmark reyndist þetta sigurmark leiksins og Fylkir hrósaði sigri.
Aftureldingarliðið lék mjög vel í kvöld og átti svo sannarlega skilið a.m.k. eitt stig úr leiknum og líklega hefði jafntefli verið úrslit sem bæði lið hefðu sætt sig við miðað við hvernig leikurinn spilaðist. Okkar lið lék skipulega og náði að halda boltanum vel innan liðsins og gaf fá færi á sér. Greinilegt að Teddi og stelpurnar eru að finna réttu taktíkina og nú er bara að halda áfram á sömu braut í næstu leikjum.
Það er nánast ómögulegt að nefna einn leikmann öðrum fremur eftir frammistöðuna á Fylkisvelli. Mist er öryggið uppmálað í markinu og átti eina algjöra toppvörslu í síðari hálfleik. Inga og Steinunn voru öflugar í bakvarðastöðunum og Eva leysti Steinunni vel af hólmi um miðjan síðari hálfleik. Hrefna Guðrún átti virkilega góðan dag og leysti nokkrum sinnum frábærlega úr snúinni stöðu.
Lilja vann gríðarlega gott starf djúpt á miðjunni og varði varnarmenn sína eins og herforingi. Kristrún var í yfirvinnu allan leikinn á miðjunni með Söndru í fyrri hálfleik og Brynju í þeim seinni og þær Sigga og Courtney unnu vel í sókninni og virðast strax ná að tengja vel saman. Stefanía átti nokkra flotta spretti og marktækifæri og er mikil ógn af henni og Kristín Þóra kom svo inn með sinn sprengikraft þegar leið á síðari hálfleikinn.
Maður leiksins er þó valinn með sjónarmun Amy Marron sem fréttaritara þykir eflast með hverjum leik. Amy átti frábæran dag í vörninni og flottustu tæklingu leiksins þegar Fylkir virtist vera að fá dauðafæri. Amy heldur boltanum sérlega vel og þegar hún var svo komin á ferðina þurftu heimastúlkur iðulega að grípa til þess að brjóta á henni til að stöðva för hennar.
Lið Aftureldingar:
Mist
Steinunn (Eva 59) – Hrefna – Amy – Inga
Kristrún – Lilja – Sandra (Brynja 46)
Courtney – Stefanía (Kristín Þóra 80) – Sigga