Fyrirfram var búist við spennandi viðureign tveggja jafnra liða en eitthvað fóru ferðalögin undanfarið illa með strákana okkar því þeir náðu sér ekki á strik gegn vel skipulögðu liði Vesturbæinga. Fyrri hálfleikurinn var satt best að segja ekkert sérstakur af okkar hálfu og liðin héldu til búningsklefa í hálfleik með stöðuna 2-0 fyrir gestina.
Sjónarvottar sögðu frá því að hálfleiksræða þjálfara Aftureldingar hefði verið fyrir fullorðna enda kom heldur ákveðnara liðs til leiks eftir hlé. Alexender Aron Davorsson skoraði úr víti snemma í síðari hálfleik og heimamenn efldust enn og sóttu af kappi. Það var því nokkuð gegn gangi leiksins þegar KV gerði þriðja markið stuttu síðar og þó Einari Marteinssyni, manni leiksins hjá okkur, tækist að minnka muninn aftur dugði það ekki til og úrslitin 2-3 fyrir gestina.
Við úrslitin renna okkar menn niður í þriðja sæti deildarinnar á eftir KV og HK. Næsti leikur er útileikur gegn ÍR sem er í fjórða sæti, tveimur stigum á eftir Aftureldingu.
Mynd: Raggi Óla