Stelpurnar tóku á móti Selfossi á Varmárvelli á föstudagskvöld. Þær hófu leikinn með látum og áttu nokkur prýðisfæri í upphafi leiks en gestirnir komust smám saman inní leikinn og tóku forystuna eftir rúmlega hálftíma leik. Kristín Tryggvadóttir jafnaði metin beint úr hornspyrnu stuttu síðar og staðan 1-1 í hálfleik. Eftir varnarmistök í upphafi síðari hálfleiks náði Selfoss forystunni og juku hana svo um miðjan seinni hálfleik og staðan 1-3. Telma Þrastardóttir minnkaði muninn þegar um korter var eftir en þrátt fyrir mikla pressu síðustu mínúturnar komust okkar stelpur ekki nær en Selfoss laumaði inn fjórða marki sínu eftir skyndisókn í uppbótartíma.
Selfoss liðið er greinilega langt komið með sitt undirbúningstímabil og mættu með sterkt lið og þrjá erlenda leikmenn í byrjunarliði. Ljóst að sunnanmenn ætla sér að gera vel í Pepsi deildinni í sumar undir stjórn Gunna Borgþórs. Afturelding tefldi fram einum nýjum leikmanni, Jenna Rencarati sem lék sem miðvörður og stóð sig vel. Hún er nýkomin til landsins og erfitt að dæma frammistöðu hennar eftir einn leik en hún lofar þó góðu. Að öðru leyti stillti John Andrews upp nokkuð ungu liði en stelpurnar börðust þó vel og áttu ágæta spretti.
Síðasti leikur liðsins í Lengjubikarnum í ár er gegn HK/Víkingum á föstudag.