Félagið hefur leitað að nýjum þjálfara síðan John Andrews lét af störfum og það er knattspyrnudeild gleðiefni að kynna Theodór Sveinjónsson til sögunnar sem þjálfara.
Theodór – eða Teddi eins og hann er kallaður, er rúmlega fertugur fjölskyldumaður sem býr í Grafarvoginum og hefur starfað við þjálfun í mörg ár. Hann hóf sinn þjálfaraferil 1999 hjá Fram og fór síðan til Fjölnis þar sem hann var í allmörg ár. Hann var aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Elísabetu Gunnarsdóttur hjá Val árin 2005-2007 og tók svo við meistaraflokki kvenna hjá Fjölni 2007-2008. Næstu fjögur árin þjálfaði hann meistaraflokk kvenna hjá Þrótti og síðustu tvö ár hefur hann stýrt 2.og 3.flokki hjá Breiðblik ásamt að sjá um sérþjálfun fyrir meistaraflokk.
Teddi hefur stýrt sínum liðum til fjölmargra verðlauna og má nefna þar Íslandsmeistartitla, sigur í Faxaflóamótum og Bikarkeppni KSÍ með 2. og 3. flokki Breiðabliks, Lengjubikarmeistaratitil og sigur í 1.deild með Þrótti, Íslands- og bikarmeistaratitla með Val og ýmsa aðra sigra og verðlaun með m.a. Fjölni og Reykjavíkurúrvali drengja á Ólympíuleikum barna í Coventry 2005.
Það er því ljóst að Theodór er mikill fengur fyrir félagið enda hefur hann öðlast mikla reynslu af þjálfun í kvennaboltanum og náð sér í þekkingu og menntun við hæfi undanfarin ár en hann er m.a. með UEFA-A gráðu í knattspyrnuþjálfun og stjórnarmaður í Knattspyrnuþjálfarafélagi Íslands.
Knattspyrnudeild býður Theodór velkominn til starfa – Áfram Afturelding !