Það voru eflaust ekki margir sem reiknuðu með spennandi leik þegar Afturelding mætti á Þórsvöll á Akureyri til að spila þar við heimakonur í Þór/KA sem fyrir leik voru í efsta sæti Pepsideildarinnar.
En annað kom á daginn og stelpurnar okkar hófu leik með látum og slógu andstæðinga sína útaf laginu með góðu leikskipulagi og baráttu. Strax eftir tæpar tíu mínútur fékk Sigríður Þóra Birgisdóttir laglega sendingu innfyrir frá Helen Lynskey og stakk af vörn Þórs/KA. Markvörður Þórs/KA kom út á móti Siggu sem lék framhjá henni en féll við og virtist augljóst um brot að ræða.
Samkvæmt myndbandsupptöku virðist sem markvörður norðanstúlkna hafi rænt framherjann okkar upplögðu marktækifæri og hefði dómari leiksins því bæði átt að dæma vítaspyrnu og sýna markverðinum rautt spjald. Það er skemmst frá að segja að hann gerði hvorugt heldur spjaldaði Siggu fyrir meintan leikaraskap.
Sigga var þó ekki af baki dottin og hún kom Aftureldingu yfir eftir 35 mínútur með glæsilegu langskoti og þannig stóð í hálfleik. Þór/KA byrjaði síðari hálfleikinn betur og jöfnuðu metin nánast strax eftir hlé með og um miðjan hálfleikinn kom svo annað mark þeirra og staðan orðin 2-1.
Þrátt fyrir góðan sprett Aftureldingar í lokin þar sem við pressuðum vel á heimaliðið tókst ekki að jafna metin og naumur sigur Þórs/KA staðreynd. Afturelding var þó síst lakari aðilinn í leiknum og stelpurnar okkar voru mjög svekktar í leikslok að ná ekki að landa a.m.k. einu stigi í besta leik liðsins til þessa í sumar.
Þór/KA er með gott lið enda sitja þær sem stendur einar á toppi Pepsideildarinnar og eru til alls líklegar í sumar. Þær áttu þó fullt í fangi með baráttuglaða Mosfellinga og hrósa eflaust happi með stigin þrjú. Bestar í liði Aftureldingar voru allar – liðið vann gríðarlega vel saman og missti aldrei trúna á að ná í góð úrslit. Sérstakt klapp fær þó Amy Marron sem átti stórleik í miðri vörninni og einnig Mist sem tók nokkrum sinnum á honum stóra sínum í marki Aftureldingar.
Afturelding er því enn í neðsta sæti deildarinnar en liðið er klárlega á leiðinni þaðan miðað við frammistöðuna í þessum leik. Næst tekur liðið á móti Val í bikarnum á föstudag og svo er heimaleikur við ÍBV í deildinni í næstu viku
Lið Aftureldingar:
Mist
Steinunn (Eva 63) – Amy – Hrefna – Brynja
Berglind – Lilja – Dísa (Stefanía 74)
Aldís – Sigga – Helen