Úrtaksæfingar hjá U17 og U19 karla framundan

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Birkir Þór Guðmundsson hefur verið boðaður á æfingar hjá U19 sem fram fara í Kórnum en það er í nægu að snúast hjá Birki um þessar mundir en hann er nýkominn frá Svíþjóð þar sem hann dvaldi hjá stórliðinu Hammarby í nokkra daga við æfingar.

Birkir var þar ásamt Elvari Inga Vignissyni en þeir félagar tóku þátt í æfingum og æfingaleikjum í Stokkhólmi með Hammarby sem m.a. varð sænskur meistari árið 2001.

Í Kórnum mun Birkir hitta fyrir Arnór Gauta Ragnarsson sem er uppalin Aftureldingarpiltur sem leikur nú með Breiðablik en Arnór var einmitt á dögunum á reynslu hjá ensku liðunum Brighton og Reading þar sem hann æfði með „okkar manni“ Axel Óskari Andréssyni þannig að þræðir Aftureldingar liggja nú víða í knattspyrnuheiminum.

Arnór Breki Ásþórsson og Andri Freyr Jónasson eru svo boðaðir á æfingar hjá U17 sem fram fara þessa sömu helgi í Kórnum og Egilshöll en Arnór Breki er enn að pússa bikarinn sem hann fékk sem knattspyrnumaður Aftureldingar á uppskeruhátíðinni um helgina.

Knattspyrnudeild óskar öllum þessum piltum innilega til hamingju með árangurinn og góðs gengis í komandi verkefnum.