Um síðustu helgi fór fram úrtökumót fyrir stúlkur og þar var það Eva Rut Ásþórsdóttir sem tók þátt fyrir okkar hönd. Eva hefur þrátt fyrir ungan aldur þegar komið við sögu í tveimur leikjum fyrir meistaraflokk félagsins í 1.deild kvenna en hún leikur þó fyrst og fremst með þriðja flokki.
Þar er sameiginlegt lið Aftureldingar, Fjölnis og Fram komið í úrslit bikarkeppni KSÍ og mun leika úrslitaleik við FH þann 10.september nk. Stelpurnar eru einnig á toppi síns riðils í Íslandsmótinu og stefna þar að sæti í úrslitakeppninni í haust.
Um þessa helgi fer svo fram Úrtökumót fyrir stráka og voru fulltrúar Aftureldingar að þessu sinni þeir Jökull Andrésson og Guðjón Breki Guðmundsson. Jökull er búsettur í Reading í Englandi ásamt fjölskyldu sinni og æfir þar með unglingaliði félagsins en er skráður í Aftureldingu og hefur komið við sögu í nokkrum leikjum 3.flokks karla í sumar.
Guðjón Breki spilar einnig með 3.flokki en strákarnir þar, þrátt fyrir misjafnt gengi á Íslandsmótinu, gerðu sér lítið fyrir og komust alla leið í undanúrslit bikarkeppninnar. Guðjón Breki hefur einnig komið við sögu í nokkrum leikjum með 2.flokki og á framtíðina fyrir sér.
Úrtökumótin eru undir stjórn Freys Sverrissonar.