Varmárvöllur verður Fagverksvöllur

Ungmennafélagið Afturelding Knattspyrna

Knattspyrnudeild Aftureldingar og Verktakafyrirtækið Fagverk hafa gert með sér samkomulag um að Fagverk kaupi nafnarétt knattspyrnuvallarins að Varmá. Völlurinn mun því kallast Fagverksvöllurinn að Varmá næstu tvö árin.

Fagverk hefur verið styrktaraðili knattspyrnudeildar Aftureldingar undanfarin ár en eykur nú samstarf sitt við félagið. Þetta er í fyrsta sinn sem Afturelding selur nafnaréttinn að Varmá og er það gleðiefni að öflugt fyrirtæki úr heimbyggð standi að baki félaginu.

„Það skiptir knattspyrnudeildina sköpum að hafa styrktaraðila líkt og Fagverk með sér í liði. Við erum gríðarlega ánægð með að þessi samningur sé í höfn og þetta mun hjálpa félaginu mikið í því ástandi sem nú ríkir,“ segir Guðbjörg Fanndal Torfadóttir, formaður knattspyrnudeildar Aftureldingar. „Það hefur verið mikill uppgangur hjá Aftureldingu í knattspyrnu á undanförnum árum. Bæði okkar lið leika í næstefstu deild og við erum með yfir 600 iðkendur í barna- og unglingastarfi félagsins. Það er bjartir tímar framundan í Mosfellsbæ.“

„Afturelding er félagið mitt og það er frábært að geta stutt við bakið á því með þessum hætti,“ segir Vilhjálmar Þór Matthíasson, framkvæmdastjóri Fagverks.

Fagverk er verktakafyrirtæki úr Mosfellsbæ sem sérhæfir sig einkum á þremur sviðum verktakavinnu, malbikun, malbiksfræsun og jarðvinnu fyrir malbikunarframkvæmdir. Systurfyrirtæki Fagverks er Malbikstöðin sem framleiðir hráefni til malbiksframkvæmda með áherslu á gæði, þjónusta og umhverfissjónarmið.

Afturelding vill koma á framfæri þökkum til Fagverks fyrir stuðninginn og vonast eftir löngu og farsælu samstarfi.

Mynd/RaggiÓla: Guðbjörg Fanndal Torfadóttir og Vilhjálmur Þór Matthíasson innsigla samstarf knattspyrnudeildar Aftureldingar og Fagverks.