Úlfur þjálfari hefur notað marga menn á undirbúningstímabilinu og telst fréttaritara til að 27 leikmenn hafi komið þar við sögu. Afturelding varð fyrir áfalli nýlega þegar Bjarni Þórður markmaður greindist með brjósklos en í vikunni gekk Bergsteinn Magnússon til liðs við félagið til að leysa Bjarna af hólmi.
Það verður fróðlegt að sjá byrjunarliðið í þessum fyrsta leik en það er þó nokkuð öruggt að Bergsteinn mun standa í marki Aftureldingar í kvöld.
Ef allir eru leikfærir í kvöld má reikna með að vörnina skipi Einar Marteins, Andri Hrafn, Þorgeir Leó og Kristinn Jens. Gunnar Logi hefur einnig spilað vel á undirbúningstímabilinu og þá er Birgir Freyr mættur aftur en hann hefur reynslu úr hafsentinum sem og Daníel Andri. Sigursteinn Sævar og Valgeir Árni eru svo ungir heimamenn sem hafa verið að fá sínar fyrstu mínútur með meistaraflokki í vor og gætu komið eitthvað við sögu í sumar.
Á miðjunni er einnig mikið mannaval og ljóst að þar verður samkeppni mikil um sæti í byrjunarliðinu. Í vor hefur liðið spilað útgáfu af 4-3-3 og miðað við uppstillingu í síðustu leikjum má reikna með að Birkir Þór byrji sem varnartengiliður en Magnús Már og Wentzel Steinarr sitji framar og haldi um leikstjórn. Nik Chamberlain er þó líklegur inná miðjuna sem og þeir Gunnar Andri og Steinar Ægis.
Sóknarlínan er einnig fjölmenn og reyndar margir leikmenn sem geta bæði spilað á miðjunni og í sókn og ber því að líta þessa samantekt með þeim fyrirvara. Í síðasta leik hóf Elvar Freyr leik á bekknum en hann er öflugur markaskorari og er líklegur í byrjunarliðið í kvöld sem fremsti maður. Atli Alberts mun vera út á vængnum en erfiðara er að spá um rest. Gunnar Wigelund kemur sterkur inn þegar hann er leikfær og þá munu Egill Jó og Alexander Aron klárlega gera atlögu að byrjunarliðssæti. Spánverjinn Ferran Garcia Castellanos gekk til liðs við Aftureldingu í vor en óvíst er hvort hann verður í hóp í kvöld.
Arnór Breki var ekki með í síðasta leik og spurning með hvort hann er klár í kvöld en Kristófer Örn er tilbúinn í slaginn. Þá eru fleiri ungir og efnilegir piltar í okkar röðum sem eflaust munu fá mínútur í sumar og má þar nefna Andra Frey sem skoraði í síðasta leik og þá Jason Daða, Bjarka Stein og Viktor Marel sem allir hafa verið í hóp á undirbúningstímabilinu.
Fréttaritari ætlar því að giska á eftirfarandi byrjunarlið í kvöld: Bergsteinn – Kristinn, Einar, Andri, Þorgeir – Birkir, Nik, Maggi – Atli, Elvar og Wentzel.
Mótherjinn KV er sem kunnugt er staðsettur í Vesturbæ Reykjavíkur og er af álitsgjöfum Fótbolta.net spáð 4.sæti í deildinni. Má því búast við hörkuleik en aðalsmerki KV er sagt vera sóknarleikurinn. Afturelding hefur sýnt ágæta leiki í vor og skorað mikið og við spáum því fjörlegum leik og 2-2 jafntefli sem bæði lið geta líklega sætt sig við í fyrsta leik.
Næsti leikur er á þriðjudag gegn Fram í Borgunarbikarnum en fyrsti heimaleikur okkar er svo á laugardag eftir viku gegn Ægi.