Weetos mótið á Tungubökkum gekk vel

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Mótið sem í þetta sinn er haldið í samvinnu við Weetos á Íslandi fór afar vel fram í blíðskaparveðri á Tungubökkum og var gerður góður rómur að framkvæmdinni. Þegar fréttaritari náði tali af Gunnari Inga mótstjóra átti eftir að staðfesta endanlega tölu þáttakenda en reiknað var með eitthvað á annað þúsund börnum í sjötta, sjöunda og áttunda flokki og líklega á milli þrjú- og fjögurþúsund gestum samtals.

Mótið var að venju með hraðmótsfyrirkomulagi og voru þáttakendur leystir út með sérlega veglegum glaðning frá Weetos og vill knattspyrnudeild koma á framfæri bestu þökkum til Weetos og Ölgerðarinnar fyrir veittan stuðning.

Að móti af þessari stærðargráðu kemur stór og öflugur hópur sjálfboðaliða sem sjá um leikjauppröðun, dómgæslu, verðlaunaafhendingar, veitingasölu, almenna umsjón og gæslu á svæðinu, ýmsan undirbúning og frágang og vill knattspyrnudeild einnig færa þeim sínar bestu þakkir. Allur ágóði af mótinu rennur til Barna- og unglingaráðs og er mótið orðið ein mikilvægasta fjáröflun ársins.