Tólf strákar úr 10. flokki Aftureldingar í körfubolta lögðu af stað miðvikudaginn 5. febrúar 2025 rétt fyrir gular, appelsínugular og rauðar veðurviðvaranir. Þeir rétt náðu flugtaki áður en öllum flugum til og frá landinu var aflýst. Fyrst var flogið til Helsinki og eru þeir núna mættir til Valmiera í Lettlandi og taka þátt í European Youth Basketball League. EYBL er keppni sem haldinn er í mismunandi Evrópulöndum ár hvert fyrir yngri félagslið í álfunni. Mótin hafa verið að eflast og er þetta í fyrsta skipti sem lið frá Aftureldingu tekur þátt í svona stóru alþjóðlegu móti. Í fyrra var svokallað “allstar” lið sent til keppni í mótið frá Íslandi og árið þar á undan fóru Stjörnumenn fæddir 2008 og tóku þátt í mótinu. Í ár er Afturelding með drengi fædda 2009 í U16 en einnig er Valur með lið stráka fædda 2008 í U17 mótinu. Þrjár umferðir eru leiknar á ári hverju og var strákunum boðið að taka þátt í þessari umferð mótsins. Þetta eru frábær tækifæri til þess að víkka sjóndeildarhringinn, máta sig gegn öðrum jafnöldrum í álfunni, vonandi stærri og sterkari andstæðingum en eru heima og auk þess er það virkilega lærdómsríkt og ekki síður skemmtilegt að taka þátt í svona verkefnum. Strákarnir leika fjóra leiki frá fimmtudegi til sunnudags gegn liðum frá Lettlandi, Ungverjalandi og Georgíu. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Dagskrá mótsins
Fyrsti leikur ferðarinnar var í dag fimmtudaginn 6. febrúar gegn liði frá Lettlandi að nafni Siguldas Sporta Skola en mikil tilhlökkun var í hópnum. Leikurinn var hinn mesta skemmtun en strákarnir byrjuðu betur með flottum sóknarleik og leiddu með 4 stigum eftir fyrsta leikhluta 18-14. Þeir héldu áfram sömu ákefð í sókn og með öflugum varnarleik héldu þeir Sigulda í aðeins 6 stigum í 2. leikhluta. Staðan því 38-20 fyrir okkar mönnum í hálfleik. Munurinn hélst sá sami eftir 3ja leikhluta en loks í þeim fjórða náðu Lettarnir að sækja í sig veðrið og sigruðu hann 29-21. Leikurinn var þó flottur hjá okkar strákum og höfðu allir fengið að koma inná í fyrsta leikhluta. Við fengum 20 stig frá varamannbekknum og því flott liðsframlag staðreynd og sigur 79-69 í fyrsta leiknum hjá strákunum. Virkilega góð barátta og fjör í þessu. Eftir leik er farið beint í endurheimt, með næringu, teygjum og slökun það var því haldið beint í kvöldmat og svo fóru einhverjir í pottinn og að jafna sig eftir átökin. Meira fjör á morgun!
Sigur í fyrsta leik EYBLÁ morgun föstudag leika þeir síðan gegn öðru lettlensku liði að nafni Ezerzeme/BJSS klukkan 18:00 á staðartíma, 16:00 íslenskum. Öllum leikjum liðsins er streymt í gegnum heimasíðu keppninnar https://www.eybl.lv/new/ce_u16_scheduler.php# en þar er einnig hægt að fylgjast með tölfræðiþáttum sem og fjölmörgum öðrum upplýsingum.
Á laugardag leika þeir síðan kl. 13:00 á staðartíma (11:00 íslenskum) gegn Ungversku liði að nafni Zsiros Academy og síðasti leikur liðsins á sunnudag verður gegn Ajara Batum en þeir eru frá Georgíu og hefst sá leikur einnig kl. 13:00 á staðartíma (11:00 íslenskum tíma).
Við munum flytja ykkur fréttir af gangi mála hér á vefnum og hvetjum ykkur til þess að fylgjast með liðinu á samfélagsmiðlum og Youtube en allir leikir eru í ókeypis streymi á Youtube síðu keppninnar.
Sannarlega gaman að sjá lið frá Aftureldingu í Mosfellsbæ keppa í alþjóðlegum keppnum.
Áfram Afturelding Körfubolti