Strákarnir ætluðu svo sannarlega að mæta með háa orku í leik dagsins er þeir mættu liði frá Ungverjalandi, Zsiros Academy. Þeir byrjuðu leikinn af miklum krafti komust í 10-2 og 16-6 þegar Ungverjarnir vöknuðu til lífsins og vissu ekki hvaðan á sér stóð veðrið. Strákarnir að spila vel og höfðu greinilega farið vel yfir það sem miður fór í gær. Þeir leiddu með einu stigi eftir fyrsta leikhluta 20-19. Annar leikhluti var síðan ótrúlega vel leikinn af okkar mönnum og sigruðu þeir hann 29-15 og leiddu því með 15 stigum í hálfleik, 49-34.
Þriðji leikhlutinn var í járnum en við náðum að sigra hann 19-18 og leiddum því með 16 stigum í upphafi fjórða og síðasta leikhluta 68-52. Flott spilamennska bæði varnar og sóknarlega þar sem við leystum pressuvörn og svæðisvörn andstæðingana vel og lékum við hvurn okkar fingur. Það er eins og svo oft áður í svona alþjóðlegum bolta að leikurinn er ekki búinn fyrr en hann er raunverulega búinn og við slökuðum aðeins a klónni í byrjun fjórða, þeir gengu á lagið og okkar menn stirnuðu aðeins upp. Gott áhlaup gestanna kom í fjórða og síðasta leikhluta sem minnkuðu muninn jafnt og þétt og þegar upp var staðið komust þeir inn í leikinn í lokin og í stöðunni 75-70 fengum við fjölmörg tækifæri til þess að loka leiknum á vítalínunni, misstum fjögur víti í röð og lokasekúndurnar urðu æsispennandi. Lokastaðan þó 77-74 fyrir okkar mönnum og verðskuldaður og frábær sigur staðreynd þó naumur hafi hann verið. Þetta er risa lærdómur í þessu fyrir okkur, lærdómur að stjórna leikjum og nýta sér það sem gengur vel og prófa sig svo í þeim hlutum sem maður getur bætt. Það erum við að reyna að gera og erum í kjörstöðu núna fyrir lokadaginn sem er á morgun sunnudag að koma okkur í efri hluta riðilsins.

Sigur í höfn
Á morgun sunnudag leikum við síðasta leik okkar í þessari vegferð gegn Ajara Batumi en það er georgískt lið sem hafa spilað vel á mótinu til þessa. Strákarnir eru staðráðnir í því að gera sitt besta, leggja sig alla fram og reyna að loka mótinu með flottri liðsframmistöðu og sjá hvert það kemur okkur í úrslitum leikja. Leikurinn hefst kl 13.00 á lettneskum tíma, 11.00 á íslenskum. En eftir leikinn höldum við svo aftur til RIGA og eigum flug til Köben um kvöldmat og svo seint annað kvöld eigum við flug heim til Íslands.
Við flytjum ykkur fréttir af gangi mála á morgun, en hvetjum ykkur endilega til þess að fylgja þeim og körfunni á samfélagsmiðlum, Facebook og Instagram en við erum á fullu að gera flott starf enn þá betra og skemmtilegra í Mosfellsbænum.
Áfram Afturelding körfubolti