Meistaraflokkur karlaliðs Aftureldingar í körfubolta lék sinn fyrsta leik í Íslandsmóti í 10 ár á sunnudag þegar liðið tók á móti liði Uppsveita í 2. deild karla og hafði sigur eftir æsispennandi framlengdan leik, 81-78. Frá fyrstu mínútu var leikur liðanna spennandi og skiptust liðin á að leiða allan leikinn. Mesti munurinn var í þriðja leikhluta þegar Afturelding leiddi með 7 stigum um tíma. Gestirnir höfðu svo yfirhöndina í lok fjórða leikhluta og þegar 0,6 sekúndur voru eftir og Uppsveitamenn þremur stigum yfir reyndi Kjartan Karl Gunnarsson þriggja stiga skot til að jafna en hitti ekki. Einn leikmaður Uppsveita braut á honum í skotinu og Kjartan fékk því þrjú vítaskot og gat jafnað leikinn. Kjartan sýndi mikinn styrk og hitti úr öllum vítunum og framlenging því niðurstaðan.
Í framlengingunni var enn mikið jafnræði með liðunum en það fór þó svo að Afturelding vann með þremur stigum við mikinn fögnuð leikmanna og fjölmargra áhorfenda sem mættu á Varmá og studdu drengina vel. Stigaskor Aftureldinar skiptist þannig að Elvar Máni Símonarson skoraði 30 stig, Kjartan Karl Gunnarsson 20, Alexander Jón Finnsson 11, Eiríkur Karlsson 7, Magni Fannar Jónsson 6, Kristófer Elí Harðarson 3, Bragi Snær Hinriksson 2 og Arnar Jónsson 2.
Næsti leikur liðsins er á Varmá er næsta sunnudag, 29. september, klukkan 14 þegar lið Aþenu/Leiknis R. kemur í heimsókn. Hvetjum alla til að mæta og styðja strákana.