10. flokkur Aftureldingar, strákar fæddir 2009, hélt til Lettalands í byrjun febrúar þar sem þeir léku í Evrópudeild yngri félagsliða, EYBL keppninni (European Youth Basketball League). EYBL keppnin hefur verið haldin árlega síðustu 28 ár og er keppninni skipt upp í norður og suður deild og mismunandi aldurshópa U13, U15 , U16 , U17 og U20. Stjarnan sendi lið til keppni á síðasta ári í þessa deild en strákar fæddir 2008 fóru og einnig 2010 árgangur en það var svokallað Allstar lið sem Leifur Steinn Árnason stóð fyrir.
Í ár eru Valsmenn í U17 keppninni og Afturelding í U16 keppninni. Keppninni er skipt upp í tvær umferðir (helgar) og keppt er á mismunandi stöðum í Evrópu. Þess ber þó að geta að Afturelding ákvað að keppa bara eina helgi á meðan Valsmenn leika báðar umferðir og svokallað Challenge cup í lokin.
Að þessu sinni léku Aftureldingarstrákar í Valmiera sem er um 30 þúsund manna borg um 2 tíma akstur frá Riga og þar er ein af Ólympíu miðstöðvum Lettlands. Þeir héldu út miðvikudaginn 5. febrúar en keppni hófst á fimmtudeginum. Strákarnir léku í norðurriðlinum gegn fjórum liðum af átta sem eru í riðlinum, Siguldas Sporta skola og SK Ezerezeme BJSS en það eru Lettneskt lið. Síðan léku þeir gegn einu liði frá Ungverjalandi, Zsiros Academy og loks síðasta leik gegn Georgísku liði að nafni Ajara Batumi. Strákarnir léku í D-riðli í þessari annarri umferð deildarinnar.
Skemmst er frá því að segja að strákarnir léku vel í þessu móti og enduðu í 3ja sæti á innbyrðis stigamun með 7 stig líkt og liðin í 1. og 2. sæti, þar sem þeir sigruðu 3 leiki og töpuðu einum gegn liðinu sem endaði efst í þessari umferð, Ezerzeme en í lokaleik keppninnar sigraði Afturelding Ajara Batumi sem endaði í 2. sæti og Afturelding í því 3ja á innbyrðis stigamun eins og áður segir. Þetta var frábær reynsla og fjör fyrir þessa stráka að fá að taka þátt í svona alþjóðlegu móti, sjá og prófa sig gegn erfiðari andstæðingum sem eru stærri, sterkari og hraðari en gengur og gerist heima við. Í lok móts var síðan Dilanas Sketrys leikmaður Aftureldingar verðlaunaður í fimm manna úrvalsliði mótsins og drengirnir koma heim með bikar og medalíu fyrir 3ja sæti keppninnar en fyrst og fremst reynslunni ríkari.
Nánari umfjöllun á karfan.is.