Föstudaginn 3. janúar héldu strákarnir suður með sjó og léku gegn flottu liði Njarðvík í nýrri og stórglæsilegri höll þeirra Njarðvíkinga, IceMar höllinni. Njarðvíkingar tóku húsið í noktun núna í október og enn eitt glæsilegt körfuboltahúsið orðið að veruleika í landinu og ekki laust við öfund hjá okkur Mosfellingum, sannarlega eitthvað sem við eigum að láta okkur dreyma um. En aftur að leiknum þar sem strákarnir byrjuðu sterkt og leiddu með nokkuð góðri forystu í hálfleik og enduðu þeir á því að sigra leikinn nokkuð örugglega 100 gegn 72 stigum heimamanna í Njarðvík. Fimm leikmenn Aftureldingar skoruðu 10 stig eða meira í leiknum og því virkilega gaman að sjá samspilið milli strákanna. Sigur því staðreynd og sæti í undanúrslitum tryggt. Þar sem ekki er búið að leika alla leiki í 8. liða úrslitum og því ekki búið að draga í undanúrslit, vitum við ekki hverjum við mætum en gaman væri að fá heimaleik í undanúrslitum, fylla húsið og hvetja strákunum til dáða með sæti í bikarúrslitum í húfi.
Sunnudaginn 5. janúar fengu sömu strákar svo heimsókn frá Haukunum upp í Varmánna en nú í 11. flokki (einu ári uppfyrir sig). Haukar leika í 2.deild 11. flokks og við í 3. deild 11. flokks. Leikurinn varð hinn mesta skemmtun þar sem Haukarnir byrjuðu betur og sigruðu fyrsta og þriðja leikhluta en við lékum við hvern okkar fingur í öðrum og fjórða þar sem við skoruðum 30 stig í hvorum leikhluta fyrir sig. Leikurinn var jafn og gaman að sjá enn og aftur samspil milli leikmanna bæði varnar og sóknarlega. Í stöðunni 78-74 gegn Haukum og rétt undir 2 mínútur eftir áttum við frábæran endasprett skoruðum 15 stig gegn engu og lokuðum leiknum með sigri 89-78. Frábær sigur hjá strákunum og aftur voru 5 leikmenn sem skoruðu 10 stig eða meira og því virkilega gaman að sjá hversu margir eru að leggja í púkkið og hjálpa liðinu bæði sóknar og ekki sýst með vinnusemi á varnarhelmingi liðsins. Þeir eru því einnig í hattinum þegar dregið verður í undanúrslit bikarkeppni 11. flokks. Forvitnilegt verður að sjá hverjir andstæðingar okkar í undanúrslitum verða en sannarlega virkilega vel gert hjá þessum hóp að eiga lið í hattinum í sínum aldursflokk og ári uppfyrir sig einnig.
Við munum flytja ykkur fréttir af gangi mála þegar ljóst verður hverjum strákarnir mæta en vonumst eftir heimaleikjum og þá væri virkilega skemmtilegt að fá góða mætingu í Varmá með tilheyrandi látum eins og við í Mosfellsbænum erum þekkt fyrir.
Áfram Afturelding Körfubolti