Körfuboltastrákarnir í Aftureldingar sýndu styrk sinn á Skaganum í kvöld þegar liðið vann sannfærandi 102-78 sigur á ÍA – u eftir kraftmikinn og vel útfærðan leik í 2.deildinni í kvöld.
Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar og eftir fyrsta leikhluta leiddu Mosfellingar með einu stigi. Ungur og efnilegur hópur Aftureldingar bætti þó hratt í þegar á leið og náði 15 stiga forskoti um miðjan annan leikhluta. Skagamenn neituðu þó að gefast upp og svöruðu með sterkum lokaspretti í fyrri hálfleik þar sem þeir skoruðu átta síðustu stig, en Afturelding hélt samt níu stiga forystu í leikhléinu. Fyrri hálfleikurinn bar keim af háu orkustigi, ákefð og baráttu, þar sem Afturelding lék frjálsan og öflugan sóknarleik með mikilli liðsheild.
Í þriðja leikhluta héldu gestirnir svo áfram að byggja ofan á forskotið. Liðið herti vörnina til muna og hélt heimamönnum í aðeins 15 stigum á meðan Mosfellingar skoruðu 27. Þar með var grunnurinn lagður að öruggum sigri. Í lokaleikhlutanum hélt Afturelding áfram að spila af sjálfstrausti og krafti. Allir leikmenn lögðu sitt af mörkum og sýndu að breiddin í hópnum er mikil þó leikmannahópurinn sé mjög ungur. Lokatölur urðu 102-78 og sigurinn sannfærandi að öllu leyti.
Þjálfari liðsins, Sævaldur Bjarnason, var að vonum ánægður með frammistöðuna eftir leik:
„Ég er virkilega stoltur af hópnum í kvöld, jákvætt framhald af mjög góðri æfingaviku þar sem menn eru að leggja mikið á sig til þess að verða sterkari og betri. Við erum með mjög ungann kjarna með frábærum „eldri“ stráka, það þurfa allir að að læra hratt og mikið en þetta er langhlaup. Við vorum flottir í fyrstu umferðinni gegn Val, þetta var því jákvætt framhald af þeirri frammistöðu liðsins. Allir lögðu sig fram, unnu fyrir hvern annan og héldu orkunni út allan leikinn. Þetta er einmitt það sem við viljum sjá – að liðið verði sterkara saman og að einstaklingarnir verði betri í gegnum liðið,“ sagði Sævaldur.
Stigahæstur í liði Aftureldingar var Ólafur Snær með stórleik og 45 stig. Honum næst kom Björgvin Már með 14 stig, en Alexander Jón, Hlynur Logi og Magni Fannar skoruðu allir 11 stig hver. Óskar Víkingur bætti við 6 stigum og Sigurbjörn og Ísak skoruðu 2 stig hvor.
Sigurður Máni, Kristófer Óli, Símon Logi og Vignir Snær léku einnig og stóðu sig afar vel varnarlega, þó þeir hafi ekki komist á blað í stigaskorun að þessu sinni.
Afturelding heldur því áfram að bæta við sig, ljóst að stemningin í Mosfellsbænum er virkilega jákvæð um þessar mundir.
Við hvetjum alla Mosfellinga til að fjölmenna á næsta leik, sem jafnframt er fyrsti heimaleikur liðsins, þegar Afturelding mætir Laugdælum næstkomandi laugardag, 11. október kl. 15:00.