Í upphafi desember voru valdir fyrstu æfingahópar yngri landsliða Íslands í körfuknattleik fyrir sumarið 2025. Afturelding körfubolti á nú fimm leikmenn í þessum hópum. Sannarlega frábærar fréttir og viðurkenning fyrir starfið okkar í heild í Mosfellsbænum. Við erum ótrúlega stolt og ánægð að fá þessar fréttir og á sama tíma algjörlega sannfærð um að þetta sé rökrétt framhald af öflugri og góðri uppbyggingu í yngri flokka starfi félagsins. Afskaplega mikil gróska er í starfi körfuknattleiksdeildar Aftureldingar og með vinnusemi og dugnaði sjáum við fyrir okkur ennþá fleiri einstaklinga í mjög náinni framtíð komast á þetta stig. Þeirra eru áskoranirnar en við erum afskaplega stolt og ánægð með þessa einstaklinga okkar, við fylgjumst með þeim og hlökkum til þess að sjá fleiri leikmenn stíga þessi skref í framtíðinni. Á síðasta ári áttum við þrjá leikmenn sem komust alla leið í lokahópa og kepptu fyrir hönd Íslands síðastliðið sumar.
Leikmennirnir okkar að þessu sinni sem valdir voru í hópana eru í tveimur aldursflokkum en í U16 ára landsliðshóp voru valdir Björgvin Már Jónsson, Dilanas Sketrys og Sigurbjörn Einar Gíslason. Fyrir U15 ára landslið karla voru valdir Óliver Óskarsson og Símon Logi Heiðarsson.
Við óskum þessum leikmönnum góðs gengis í þessu verkefni og hlökkum til þess að fylgjast með þeim í framhaldinu. Þetta er mikil hvatning fyrir aðra leikmenn í Mosfellsbænum því með dugnaði, samvinnu og vinnusemi er hægt að áorka ofsalega miklu.