Íþróttafólk Aftureldingar 2024

Körfuknattleiksdeild AftureldingarKörfubolti

Milli jóla og nýárs heldur aðalstjórn Aftureldingar viðburð þar sem íþróttamenn og konur, lið og einstaklingar eru heiðruð fyrir árangur á liðnu ári.  10.flokki karla, strákar fæddir 2009 var að þessu sinni veittur Hvatabikar aðalstjórnar félagsins fyrir framúrskarandi árangur á árinu 2024 en þeir urðu einmitt íslandsmeistarar í fyrsta skipti í sögu körfuknattleiksdeildar Aftureldingar síðastliðið vor.   Þetta er sannarlega hvatning til okkar að halda áfram að gera okkar allra besta og reyna að byggja áfram upp öfluga körfuboltadeild.

Hvatabikar aðalstjórnar Aftureldingar 2024 – Íslandsmeistarar 9. fl. í körfu

Eiríkur Karlsson, leikmaður meistaraflokks karla og yngri flokka þjálfari í félaginu var tilnefndur  körfuboltamaður Aftureldingar en Eiríkur hefur verið vítamínsprauta í meistarflokki, fyrirliði og mjög virkur félagsmaður á árinu. Hann tekið mikinn þátt í því uppbyggingar ferli sem felst í því að endurvekja meistaraflokk, styrkja hann og reyna að gera hann sjálfbæran til lengri tíma litið. Eiríkur er virkilega vel að nafnbótinni kominn og verður spennandi að fylgjast með framgangi hans og meistaraflokksins á komandi árum.

Eiríkur Karlsson körfuknattleiksmaður Aftureldingar 2024

Að síðustu voru veittar rósir til þeirra sem tóku þátt í landsliðsverkefnum á árinu.  Við áttum fimm fulltrúa að þessu sinni í tveimur landsliðsverkefnum.   Símon Logi Heiðarsson og Óliver Óskarsson voru núna í desember boðaðir til æfinga í stórum æfingahópi U15 ára landsliðs drengja en þeir eru báðir í 9. bekk, fæddir 2010.  Sannarlega spennandi verkefni framundan hjá þeim og vonandi komast þeir lengra í þessum landsliðshópi.  Björgvin Már Jónsson, Dilanas Sketrys og Sigubjörn Einar Gíslason voru allir valdir í lokahóp á árinu og fóru fyrir hönd íslands á mót í Finnlandi og svo núna í lok nóvember voru þeir einnig kallaðir inn í fyrsta landsliðshóp U16 ára landsliðs Íslands og spennandi að fylgjast með hvort þeir komist alla leið eins og í ár.

Við sem að deildinni komum eru afskaplega stolt af gangi mála og gerum okkar allra besta til að bjóða upp á metnaðarfullt og öflugt starf til þess að krakkar í Mosó fái að æfa körfu.   Við viljum einnig óska Thelmu Dögg Grétarsdóttur blakkonu og Þorsteini Leó Gunnarssyni handboldamanni til hamingju með nafnbótina íþróttafólk Aftureldingar ásamt öllum þeim sem fengu tilnefningu og viðurkenningu á lokahófinu.

Áfram Afturelding körfubolti