Tap fyrir spræku liði Ezerzeme í öðrum leik liðsins á EYBL

Körfuknattleiksdeild AftureldingarKörfubolti

Strákarnir í 10.flokk léku sinn annan leik í Evrópudeild Yngri félagsliða (EYBL) í dag þar sem þeir lutu í lægra haldi fyrir ansi spræku og léttleikandi liði Ezerzeme frá Lettlandi.   Leikurinn var allur í járnum og leiddu Lettarnir með 1 stigi eftir fyrsta leikhluta 20-19.   Sami barningur var inn í annan leikhluta þar sem bæði lið skiptust á góðum köflum en heimamenn í Lettlandi leiddu með 7 stigum í hálfleik, 36-29.   Lítið skorað og varnir beggja liða að standa sína vakt.   Þess ber þó að geta að Lettarnir náðu í 15 sóknarfráköst í fyrri hálfleik sem er full vel í lagt hjá okkar mönnum því það leiddi til 15 fleiri skota hjá þeim.   Eitthvað komu strákarnir ver stemmdir inn í seinni hálfleik þar sem þeir náðu aðeins að skora 6 stig á 10 mínútum og Lettarnir gengu á lagið og komust í þægilega 15 stiga forystu eftir þrjá leikhluta.   Fjórði og síðasti leikhlutinn var síðan mun jafnarni þar sem bæði lið skoruðu á víxl en á endanum sigruðu Ezerzema verðskuldað 79-59.   Strákarnir börðust eins og ljón og gáfust aldrei upp en tapaðir boltar urðu þeirra banabiti í kvöld en 30 stykki litu dagsins ljós.  Eitthvað af því auðvitað vel skipulagður varnarleikur heimamanna en eitthvað verður líka að skrifast á okkar klaufaskap og reynsluleysi.

Halldór tekur víti

Tap því staðreynd í leik dagsins og erum við með einn sigur og eitt tap eftir fyrstu tvo leikina.   Það er þó frábær stemming í hópnum og strákarnir ætla að mæta á myndbandsfund í fyrramálið, staðráðnir í því að læra af mistökunum og prófa sig aftur.   Verkefni morgundagsins er ungverskt lið, Zsiroz Academy og hefst leikurinn klukkan 13:00 á staðartíma, 11:00 á íslenskum tíma.

Partur af þessari vegferð okkar er fyrst og fremst að gefa okkar Aftureldingarstrákum tækifæri til þess að kljást við leikmenn frá öðrum löndum og þetta er stórkostlegt tækifæri til þess.  Máta sig á móti öðrum og sjá hvernig manni gengur, stundum gengur vel og stundum illa.  Það er hins vegar partur leiksins og við lærum af því og prófum okkur aftur á morgun.    Til þess erum við hér – verða betri í þessum aðstæðum og bjóða mosfellskum íþróttamönnum frábær tækifæri á erlendri grund.

Gokart í Sigulda

Endilega fylgist með þessum hóp áfram á samfélagsmiðlum – en til þess að brjóta upp dagana hér fóru þeir í gokart í morgun þar sem Robert Maron var sá allra fljótasti en allir skemmtu sér hið besta.

Áfram Afturelding Körfubolti