Dagana 22. til 29. júní síðastliðinn fóru 28 ungir körfuboltastrákar á aldrinum 13 og 14 ára úr körfuknattleiksdeild Aftureldingar í Mosfellsbæ ásamt hátt í 60 manna hópi í ferð til Duke University í Norður-Karólínu, Bandaríkjunum. Ferðin var hluti af þjálfunar- og þróunarstarfi deildarinnar með það að markmiði að efla leikmannahópinn og styrkja samheldni innan liðsins.

Hópurinn saman á vellinum
Í Duke University fengu strákarnir tækifæri til að taka þátt í sérhæfðum körfuboltaæfingum undir leiðsögn reyndra þjálfara, auk þess sem þeim bauðst að kynnast aðstöðu eins virtasta háskólakörfuboltans í Bandaríkjunum. Ferðin var þó ekki aðeins bundin við æfingar og leik, heldur var líka farið í vettvangsheimsóknir á söfn og skemmtigarða svo fátt eitt sé nefnt, sem gaf strákunum tækifæri til að njóta félagsskapar og upplifa menningu svæðisins. Yfirþjálfari KKD-Aftureldingar og fararstjóri, Sævaldur Bjarnason, lýsti ánægju sinni með framkomu og frammistöðu strákanna: „Strákarnir voru einstaklega duglegir allan tímann og sýndu bæði mikinn áhuga og þrautseigju. Það var mjög ánægjulegt að fylgja þeim í ferðinni og sjá hvernig þeir stóðu sig vel bæði á æfingum og utan vallar.“ Sævaldur tók jafnframt fram mikilvægi stuðnings foreldra í þessari ferð: „Við viljum þakka öllum þeim fjölmörgu foreldrum sem tóku þátt, stóðu í skutli og studdu hópinn allan tímann. Þessi samstaða gerir svona stórar ferðir mögulegar og skiptir miklu máli fyrir ungmenni okkar.“

Glæsilegur völlur í Duke
Ferðin var einnig ómetanlegur lærdómur fyrir unga körfuboltadeild eins og Aftureldingu að taka þátt í svona stórum körfuboltabúðum þar sem um 480 strákar víðs vegar að úr Bandaríkjunum tóku þátt. Búðirnar bera nafn Jon Scheyer, aðalþjálfara Duke-háskólaliðsins, sem er meðal fremstu körfuboltaþjálfara Bandaríkjanna. Sævaldur benti á að þessi reynsla myndi efla leikmenn og styrkja bæði færni og félagslega þætti innan liðsins: „Þessi ferð er mikilvægur áfangi í uppbyggingu félagsins og körfuknattleiksdeildarinnar í heild og mun nýtast strákunum til mikilla muna í framtíðinni. Þetta er stórt skref fyrir strákana og upplifun sem þeir munu búa að lengi.“ sagði Sævaldur að lokum.

Aftureldingarhópurinn
Afturelding leggur mikla áherslu á fjölbreytta og metnaðarfulla þjálfun ungra leikmanna og stefnir að því að byggja upp sterka körfuboltamenningu í bænum. Þessi ferð var því hluti af víðtæku starfi deildarinnar við að efla yngri flokka félagsins.
Það er greinilegt að framtíð Aftureldingar er björt með svona duglega drengi og flottan stuðning frá fjölskyldum þeirra!