Lið Aftureldingar er stöðugt að taka á sig mynd og hefur styrkt sig fyrir keppni í 2.deildinni í ár. Æfingar hafa gengið mjög vel undanfarið undir handleiðslu Sævaldar Bjarnasonar og virkilega skemmtileg stemning í hópnum fyrir þessu verkefni í Mosfellsbænum. Ungir og efnilegir leikmenn úr öðrum liðum ætla að taka þátt í þessu verkefni með félaginu. Nokkrir þeirra hafa leikið með yngri landsliðum Íslands og verið öflugir póstar í uppeldisliðum sínum. Þeir leikmenn sem ákveðið hafa að taka slaginn með Aftureldingu eru:
- Alexander Jón Finnsson, fæddur 2004, Borgnesingur í húð og hár kemur til Aftureldingar frá Skallagrími.
- Elvar Máni Símonarson, fæddur 2005 , Fjölnismaður sem kemur úr Grafarvoginum.
- Eysteinn Freyr Júlíusson verður aldursforsetinn í hópnum, fæddur 1989, uppalinn Fjölnismaður sem marga fjöruna hefur sopið í bransanum og ótrúlega gott að fá svona mikla reynslu inn í hópinn.
- Kjartan Karl Gunnarsson, fæddur 2005, Fjölnismaður sem kemur til Aftureldingar á venslasamning frá Fjölni.
- Kristófer Elí Harðarson, fæddur 2006, uppalinn ÍR-ingur og kemur í Mosfellsbæinn úr Breiðholtinu.
- Óskar Víkingur Davíðsson, fæddur 2005, Breiðhyltingur með sterkar rætur úr Skagafirðinum en hann kemur til Aftureldingar frá ÍR.
Auk þessara leikmanna hefur Arnar Jónsson tekið að sér að vera formaður meistaraflokksráðs deildarinnar. Arnar er búsettur í Mosfellsbæ og er fæddur 1989, uppalinn Fjölnismaður og sá eini í hópnum sem lék með Aftureldingu síðast þegar þeir voru í 2. deild karla. Arnar hefur komið sterkur inn á bakvið tjöldin en stefnir einnig á að vera leikmaður, stuðningsmaður og allt þar á milli í þessu skemmtilega verkefni sem nú fer af stað með heimaleik gegn Uppsveitum að Varmá.