Ungir og efnilegir leikmenn styrkja og styðja við Aftureldingu

Körfuknattleiksdeild AftureldingarKörfubolti

Lið Aftureldingar er stöðugt að taka á sig mynd og hefur styrkt sig fyrir keppni í 2.deildinni í ár. Æfingar hafa gengið mjög vel undanfarið undir handleiðslu Sævaldar Bjarnasonar og virkilega skemmtileg stemning í hópnum fyrir þessu verkefni í Mosfellsbænum.  Ungir og efnilegir leikmenn úr öðrum liðum ætla að taka þátt í þessu verkefni með félaginu. Nokkrir þeirra hafa leikið með yngri landsliðum Íslands og verið öflugir póstar í uppeldisliðum sínum. Þeir leikmenn sem ákveðið hafa að taka slaginn með Aftureldingu eru:

  • Alexander Jón Finnsson, fæddur 2004, Borgnesingur í húð og hár kemur til Aftureldingar frá Skallagrími.
  • Elvar Máni Símonarson, fæddur 2005 , Fjölnismaður sem kemur úr Grafarvoginum.
  • Eysteinn Freyr Júlíusson verður aldursforsetinn í hópnum, fæddur 1989, uppalinn Fjölnismaður sem marga fjöruna hefur sopið í bransanum og ótrúlega gott að fá svona mikla reynslu inn í hópinn.
  • Kjartan Karl Gunnarsson, fæddur 2005, Fjölnismaður sem kemur til Aftureldingar á venslasamning frá Fjölni.
  • Kristófer Elí Harðarson, fæddur 2006, uppalinn ÍR-ingur og kemur í Mosfellsbæinn úr Breiðholtinu.
  • Óskar Víkingur Davíðsson, fæddur 2005, Breiðhyltingur með sterkar rætur úr Skagafirðinum en hann kemur til Aftureldingar frá ÍR.

 

Frá vinstri: Kristófer Elí, Alexander Jón, Elvar Máni, Óskar Víkingur og Eysteinn Freyr.

 

Kjartan Karl

Auk þessara leikmanna hefur Arnar Jónsson tekið að sér að vera formaður meistaraflokksráðs deildarinnar.  Arnar er búsettur í Mosfellsbæ og er fæddur 1989, uppalinn Fjölnismaður og sá eini í hópnum sem lék með Aftureldingu síðast þegar þeir voru í 2. deild karla.  Arnar hefur komið sterkur inn á bakvið tjöldin en stefnir einnig á að vera leikmaður, stuðningsmaður og allt þar á milli í þessu skemmtilega verkefni sem nú fer af stað með heimaleik gegn Uppsveitum að Varmá.