Aron Sigurvinsson, sem lék með Aftureldingu í yngri flokkum í knattspyrnu, lenti í alvarlegu bílslysi um verslunarmannahelgina síðustu. Hann barðist fyrir lífi sínu fyrstu dagana og hefur síðan gengist undir margar aðgerðir og erfiða endurhæfingu.
Hann tvíhálsbrotnaði í slysinu og hlaut mikla innvortis áverka. Í einni af rannsóknunum vegna hálsbrotsins kom óvænt í ljós að hann er með krabbamein í eitlum í hálsi. Glíman við krabbameinið bætist þannig við endurhæfingu Arons eftir bílslysið.
Á fundi fulltrúa Liverpool skólans á Íslandi með yfirmönnum Liverpool International Academy í höfuðstöðvum Liverpool á dögunum vaknaði sú hugmynd að bjóða upp bolta sem er áritaður af Liverpool liðinu til styrktar Aroni.
Aron er harður stuðningsmaður Liverpool og hefur tvívegis verið aðstoðarþjálfari í Liverpool skólanum á Íslandi.
Samstarf Liverpool og Aftureldingar síðustu 9 ár hefur verið einstaklega farsælt og var það auðsótt mál þegar Afturelding óskaði eftir framlagi frá Liverpool til að geta stutt við Aroni og fjölskyldu hans á þessum erfiðu tímum. Aron lék með yngri flokkum Aftureldingar og þjálfaði einnig yngri flokka félagsins fyrir nokkrum árum.
Uppboðið á fótboltanum fer fram hér á Fótbolta.net og stendur til miðvikudagsins 18. Desember kl 21:00
Bjóddu í boltann með því að senda á fotbolti@fotbolti.net og merktu póstinn „Uppboð til styrktar Aroni“.